10.7.2015 21:20

Föstudagur 10. 07. 15

Í dag var 200 afmælis Hins íslenska biblíufélags minnst á hátíðlegan hátt með messu í Dómkirkjunni og síðan var athöfn í Reykjavíkurkirkjugarði og skjöldur afhjúpaður á húsinu við Aðalstræti 10 eins og sjá má hér. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hitti Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs ESB, í Brussel í morgun. Eftir fundinn birti ruv.is þessa frétt:

 „Það var mikil jákvæðni ríkjandi í garð Íslands. Ég held að menn séu fyrst og fremst fegnir að það sé komin niðurstaða í það hvernig sambandi Íslands og ESB verði háttað og menn geti þá byggt á því.“ 

Hann [Sigmundur Davíð] segir að Ísland sé reiðubúið að ráðleggja Evrópusambandinu varðandi fiskveiðistjórnun. Mikill áhugi á þeim málum hafi komið fram í heimsókninni. Jafnframt styðji Ísland það að ESB hafi áheyrnarfulltrúa í Norðurskautsráðinu.

Báðum fundum Sigmundar Davíðs með leiðtogum Evrópusambandsins [hann hitti Jean-Claude Juncker í gær] er nú lokið. Sigmundur segist mjög ánægður með framvindu beggja funda. Þeir hafi þó vissulega litast af ástandinu í Grikklandi.

„Auðvitað setur ástandið í Grikklandi núna svolítið strik í reikinginn og við veltum vöngum yfir því,“ segir Sigmundur. „Auðvitað veit enginn hvernig það fer á endanum en við ræddum hvaða leiðir á endanum væru færar og líklegastar og hvaða áhrif það kynni að hafa á önnur Evrópulönd.“ […]

Aðspurður hvort þetta [fjárfesting Kínverja á Íslandi] sé liður í því að dreifa áhættunni, segir Sigmundur: „Við auðvitað tökum vel í allt slíkt en viljum auðvitað eiga slík uppbyggileg samskipti við fleiri lönd. Ekki bara Kína heldur lönd um allan heim og erum vel í stakk búinn til þess, enda eru fá lönd með fríverslunarsamninga við jafnmörg ríki eins og Íslendingar.“

 

Athygli vekur að í fréttinni er ekki minnst einu orði á stöðu Íslands gagnvart ESB.

Í frétt forsætisráðuneytisins um fundina segir ráðherrann:  

„Ríki Evrópusambandsins eru okkar mikilvægustu viðskiptaaðilar og nánar vinaþjóðir. Að Ísland sé ekki lengur umsóknarríki breytir engu þar um. Ég átti mjög góða fundi með forvígismönnum Evrópusambandsins sem hafa góðan skilning á afstöðu íslenskra stjórnvalda og virða að fullu þær ákvarðanir sem þar hafa verið teknar.“

Öllum á fundum forsætisráðherra í Brussel var auðvitað ljóst að Ísland er ekki hópi umsóknarríkja.