Fimmtudagur 30. 07. 15
Í gær var sagt frá því hér að ferðafélagi hefði kynnst landamæravörslu þegar hann fór með lest frá Ítalíu til Frakklands í suð-austur horni landsins. Þar gera menn ráðstafanir til að stöðva straum farandfólks frá Ítalíu og löndum handan Miðjarðarhafs.
Ástandið á þessum landamærum Frakklands er þó ekki eins dramatískt og í norð-vestur horni landsins þar sem umsátursástand ríkir í hafnar- og Ermarsundsganga-borginni Calais. Um árabil hefur farandfólk safnast þar saman í von um að finna sér far um göngin eða með ferju til Englands handan við Ermarsundið.
Þar var sérstakri móttökustöð fyrir þá sem vildu halda til Englands lokað fyrir 13 árum, árið 2003. Lokunin varð síður en svo til þess að stöðva straum farandfólks til Calais. Það virðist til þess búið að fórna lífinu fyrir það eitt að komast yfir sundið.
Aðfaranótt miðvikudags 29. júlí urðu enn einu sinni dramatískir atburðir í Calais. Þá var rúmlega 2.300 sinnum reynt að brjótast inn í stöð Eurotunnel, það er stöð fyrirtækisins sem á lestirnar sem fara undir Ermarsund, nóttina á undan voru tilraunirnar rúmlega 2.100. Um tveggja mánaða skeið hefur þessi tala hverja nótt verið á bilinu 1.500 til 2.000.
Frönsk yfirvöld saka Eurotunnel-fyrirtækið um að hafa minnkað öryggisgæslu á sínum vegum og þannig kallað á meiri ásókn fólks en áður. Af hálfu fyrirtækisins er þessu mótmælt og sagt að frá áramótum hafi það stöðvað að minnsta kosti 37.000 manns sem reyndu að lauma sér undir sundið í göngunum.
Í leiðara Le Monde í dag segir að ekki sé unnt að leysa þennan vanda með því einu að fjölga öryggisvörðum og lögreglumönnum. Bretland hafi aðdráttarafl fyrir þá sem vilji stunda svarta vinnu því að þar sé ekki krafist neins nafnskírteinis, það er skilríkja til að sanna hver maður er. Þá sé Bretland utan Schengen sem auki aðdráttaraflið. Spurt er hvort breyta þurfi Schengen-samkomulaginu. Hinir dramatísku atburðir sem gerist við Miðjarðarhaf og Calais sýni hvað sem öðru líði að brýnt sé að endurskoða evrópsk útlendingalög.