21.7.2015 21:30

Þriðjudagur 21. 07. 15

François Hollande Frakklandsforseti minntist 90 ára afmælis ESB-frömuðarins Jacques Delors sunnudaginn 19. júlí með grein í Journal du Dimanche þar sem hann ítrekaði tillögu sem hann nefndi í hefðbundnu fjölmiðlaviðtali þjóðhátíðardaginn 14. júlí um að setja yrði evru-svæðinu sameiginleg fjárlög, velja því eigin ríkisstjórn og kjósa sérstakt evru-þing.

Í greininni hvatti forsetinn til að mynduð yrði forystusveit ríkja á evru-svæðinu. Hann nefndi engin til sögunnar en síðar gerði Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, það og nefndi Frakkland, Þýskaland, Ítalíu og einnig önnur stofnríki ESB: Belgíu, Holland og Lúxemborg.

Hollande lauk grein sinni með þessum orðum: „Frakkar eru tilbúnir, minnugir fordæmis Jacques Derols: Frakkland verður ætið stærra með frumkvæði í þágu Evrópu.“

Þessi ummæli Frakklandsforseta falla vel að myndinni sem leitast er við að draga upp af honum um þessar mundir: hann hafi bjargað evru-samstarfinu með því að halda Grikkjum innan þess þrátt fyrir efasemdir annarra einkum Þjóðverja. Orð hans hafi vegið þungt gagnvart Angelu Merkel.

Nú leggja ýmsir málsmetandi menn í Frakklandi áherslu á að Hollande sé einum treystandi til að móta stjórnkerfi sem bjargi evrunni og samstarfi evru-ríkjanna.

Þegar að er gáð einkennast hugmyndir Hollandes ekki af frumleika. Þær eru gamalkunnar í umræðum um að annað hvort dýpki evru-ríkin samstarf sitt eða það splundrist. Vandinn er nú hinn sami og áður að engin þjóðanna vill að fullveldi sitt sé skert enn frekar – líklega síst af öllu Frakkar, megi dæma af sögunni, andstöðu við Maastricht-sáttmálann á sínum tíma og síðar stjórnarskrá Evrópu vorið 2005.

Hollande reynir að styrkja stöðu sína í Frakklandi með ákalli um meira yfirþjóðlegt vald á evru-svæðinu. Hann stendur ákaflega illa í skoðanakönnunum. Hvert hálmstrá er gripið. Þetta dugar Hollande þó ekki til endurreisnar.