12.7.2015 22:10

Sunnudagur 12. 07. 15

Það er í raun furðulegt að velta á þessum tímum fyrir sér formsatriðum vegna afturköllunar ESB-umsóknar Íslands eða hvort aðferðin við afturköllun ráði einhverjum úrslitum um áhuga á umsókn í framtíðinni. Ástæðan fyrir að þetta er furðulegt núna eru heljartökin sem leiðtogar evru-ríkjanna hafa beitt gegn Grikkjum síðasta sólarhring. Hér hafa verið sett fordæmi sem hljóta að ráða mati allra sem huga að ESB-aðild. Fordæmi sem gera að engu öll helstu rök þeirra sem til þessa hafa mælt með aðild að ESB og upptöku evru. Efnisþættir málsins ráða að sjálfsögðu úrslitum en ekki hvort einhverjum formreglum sé talið áfátt – auk þess hafa allir stjórnmálaflokkar sagt að ekki verði rætt frekar um aðild við ESB án þess að þjóðin samþykki í atkvæðagreiðslu.

Hinn 5. júlí höfnuðu Grikkir í þjóðaratkvæðagreiðslu þeim kostum sem þeim voru settir vegna frekari fyrirgreiðslu af hálfu ESB, Seðlabanka evrunnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Nú þegar hefur gríska þingið samþykkt að verða við þessum kostum og nú um helgina hefur Grikkjum verið sett enn strangari skilyrði.

Á vefsíðu The Guardian segir að evru-leiðtogar hafi í dag kynnt Grikkjum aðgerðir í ríkisfjármálum og kröfur um framkvæmd þeirra sem jafngildi því að gríska ríkið sé svipt fjárforræði „fiscal sovereignty“ eins og segir á ensku – þetta sé verðið sem Grikkir verði að greiða til að komast hjá fjármálalegu hruni og brottrekstri af evru-svæðinu. Angela Merkel Þýskalandskanslari og François Hollande Frakklandsforseti hafi sameiginlega sett Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, þessa úrslitakosti.

Í blaðinu segir ESB-embættismaður það hafi minnt á „exercise in extensive mental waterboarding“ – það er langvinnar andlegar pyntingar – þegar leiðtogarnir tveir vildu fullvissa sig um að Tsipras mundi standa við sinn hlut yrði veitt 86 milljarða evru fyrirgreiðsla sem dygði Grikkjum í allt að fimm ár.

Tímafresturinn sem Tsipras var settur er að mánudaginn 13. júlí samþykki gríska þingið heildarkröfur evru-leiðtoganna og síðan nokkur lagafrumvörp í síðasta lagi miðvikudaginn 15. júlí, þar á meðal um eftirlaun, virðisaukaskatt.

Leiðtogafundinum lauk án niðurstöðu. Grikkir eiga næsta leik. [ps. Hér fór ég með rangt mál - það var gert hlé á fundinum honum lauk 07.00 mánudag 13. júlí með niðurstöðu.]

Að nokkrum íslenskum stjórnmálamanni detti í hug að mæla með ESB- og evru-aðild eftir þau ósköp sem nú gerast í Brussel hlýtur að teljast með ólíkindum – jafnvel þótt formsatriði við afturköllun umsóknarinnar frá 2009 veki deilur.