22.7.2015 22:00

Miðvikudagur 22. 07. 15

Tony Blair, fyrrverandi leiðtogi Verkamannaflokksins og forsætisráðherra Bretlands, flutti í dag ræðu hjá hugveitunni Progress sem hallast að sjónarmiðum flokksins. Blair sagði að næði Jeremy Corbyn kjöri sem formaður flokksins eftir 51 dag jafngilti það afturhvarfi flokksins til níunda áratugarins og hann yrði 20 ár utan ríkisstjórnar. Fjórir takast nú á um formennsku í flokknum og hefur Corbyn 17 stiga forskot gagnvart þeim næsta.

Í ræðu sinni sagði Blair að græða ætti nýtt hjarta í þá sem segðust styðja Corbyn „af öllu hjarta“. Það væri ósk íhaldsmanna að Corbyn sigraði í formannskjörinu. Formannsframbjóðandinn svaraði Blair fullum hálsi í fjölmiðlum og sagði hann glíma við „mikinn vanda“ vegna rannsóknar Chilcot-nefndarinnar á Íraksstríðinu. Ummæli Blairs væru „heimskuleg“.

Blair er ekki aðeins illa þokkaður meðal vinstrisinna innan Verkamannaflokksins heldur meðal vinstrisinna í öllum Evrópulöndum sem telja hann hafa svikið hugsjónir sannra sósíalista til að komast í ríkisstjórn. Árásir á hann í þessa veru hafa heyrst úr röðum vinstrisinna hér. Þær hafa hljómað undarlega frá ráðamönnum VG sem fórnuðu hiklaust kosningaloforðum fyrir ráðherrastóla – Blair endurnýjaði þó Verkamannaflokkinn með nýrri stefnu.

Stefán Ólafsson, prófessor við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, hefur lagt þeim hugsjónalegt lið hér á landi sem vilja draga vinstrisinna lengra til vinstri. Stefán skrifar til dæmis um heilbrigðismál á Pressuna í dag í svipuðum dúr og Ed Miliband, fyrrv. leiðtogi Verkamannaflokksins, talaði fyrir þingkosningarnar í Bretlandi sl. vor. Hann tapaði illa og sagði af sér. Blair gagnrýnir hann nú harðlega þótt hann hafi dregist á að lýsa yfir stuðningi við Miliband í kosningabaráttunni.

Munurinn á Verkamannaflokknum og Samfylkingunni er sá að í Bretlandi berjast flokksmenn fyrir opnum tjöldum um menn og málefni. Hér á landi gerist allt í skúmaskotum og með leynibrögðum eins og þegar Sigríður Ingibjörg Ingadóttir gekk á síðustu stundu á hólm við Árna Pál Árnason, sitjandi formann flokksins. Hann sigraði með sínu eigin atkvæði og síðan hefur fylgi flokksins hrunið.

Samfylkingin er ekki aðeins forystulaus heldur einnig stefnulaus eftir að ESB-umsóknin rann út í sandinn. Skjól flokksins er hve mildilega er um hann fjallað opinberlega. Í Bretlandi veita fjölmiðlamenn brotnum flokkum ekki slíka vernd. Þá sýnir framganga Blairs að á úrslitastundu sitja gamlir foringjar ekki auðum höndum.