Föstudagur 24. 07. 15
Japanski fjölmiðlarisinn Nikkei (stofnaður 1876) keypti The Financial Times (stofnað 1888) af breska fyrirtækinu Pearson fimmtudaginn 23. júlí. Pearson sem sérhæfir sig í útgáfu kennsluefnis eignaðist FT árið 1957 seldi FT Group fyrir 1,2 milljarð evra og verður gengið frá sölunni fyrir árslok. FT Group á 50% í vikuritinu The Economist, sá hlutur fylgdi ekki með í sölunni til Japana.
Um 500 blaðamenn í 50 skrifstofum um heim allan starfa við FT. Blaðið er prentað í rúmlega 20 borgum heims og talið er að það nái hvern dag til um tveggja milljóna manna. Langflestir þeirra eru utan Bretlands, aðeins 69.000 eintök af FT seljast daglega þar og af þeim 36.000 í lausasölu. Þegar litið er á heildarupplag prent- og netútgáfu FT er það samtals 722.000 eintök um heim allan.
John Fallon, forstjóri Pearsons, færði þau meginrök fyrir sölunni að í „nýju umhverfi“ væri besta leiðin til að tryggja FT sem besta fjárhagslega og fréttalega framtíð að starfsemin tengdist hnattrænu upplýsingatækni-fyrirtæki.
Nikkei er vissulega slíkt fyrirtæki. Það er heimsþekkt fyrir kauphallarvísitölu með sama nafni. Árleg velta blaðsins Nikkei er 1,4 milljarðar (hjá FT er ársvelta 472 milljón evrur). Undir merkjum Nikkei er umfangsmesta fjölmiðlun á Japanseyjum með um 3.000 starfsmönnum. Morgunútgáfu blaðsins Nihoun Keizai Shibun er dreift í 2,8 milljónum eintaka en síðdegisútgáfunni í 1,4 milljónum, samtals 4,2 milljón prentuð eintök á dag, aðeins 430.000 eru netáskrifendur. FT varð árið 2001 meðal fyrstu blaða til að krefjast greiðslu af notendum á netinu.
Nikkeier hægra megin við miðju en ritstjórnarstefna FT er miðlæg. Bæði blöðin fylgjast náið með því sem gerist í heimi efnahagsmála og viðskipta. Þá nýtur menningarhluti FT viðurkenningar. Í frétt Le Monde um söluna á FT er sérstaklega tekið fram að blaðið hafi ekki séð fyrir fjármálahrunið árið 2008 en það hafi hins vegar ekki farið leynt með gleði sína yfir óförum evrunnar.
Forvitnilegt verður að fylgjast með tilraunum hins nýja japanska eiganda til að stækka hinn fámenna, sérhæfða lesendahóp FT.