1.7.2015 18:30

Miðvikudagur 01. 07. 15

Í dag ræddi ég við Arngrím Jóhannsson flugstjóra í þætti mínum á ÍNN og má sjá hann klukkan 20.00 og síðan hvenær sem er eftir það á tímaflakki Símans. Við ræddum um norðurslóðir og áhuga Arngríms á sögu pólferða og rannsókna, hann undirbýr nú að Norðurslóðasetur verði opnað fyrir almenning á Tanganum á Akureyri. Þetta er síðasti þáttur minn fyrir sumarleyfi, fram yfir verslunarmannahelgina.

Hver sem niðurstaðan verður í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Grikklandi sunnudaginn 5. júlí er ljóst að staða Grikkja innan ESB verður aldrei hin sama og áður. Þá hefur einnig verið stigið lýðræðislegt skref innan sambandsins sem mun setja svip á ákvarðanir þegar fram líða stundir. Í sáttmálanum að baki evrunni er einfaldlega gert ráð fyrir að aðild að hinni sameiginlegu mynt sé endanleg, ekki verði til baka snúið.

Augljóst er að þeir sem ætla að segja já í Grikklandi árétta vilja sinn til að halda í evruna. Hvað þýðir að segja nei? Andstæðingar Alexis Tsipras forsætisráðherra segja að nei þýði nei við evru og nei við ESB. Hvernig er unnt að hafna evru-aðild sé það bannað í myntsáttmálanum? Við því er ekkert skýrt svar. Bent er á að Grikkir geti farið úr ESB – Lissabon-sáttmálinn heimilar úrsögn úr ESB – þeir geti síðan gengið í ESB aftur og sætt skilmálum sem gilda um upptöku evru eftir langan umþóttunartíma.

Á sínum tíma samþykkti alþingi úrsögn úr Alþjóðahvalveiðiráðinu af því að talið var að það auðveldaði ákvörðun um að hefja hvalveiðar. Þetta reyndist herfilegur misskilningur. Þá ákvað alþingi að ganga aftur í Alþjóðahvalveiðiráðið með fyrirvara um að hvalveiðar yrðu hafnar. Vegna þessa er ekki unnt að saka Íslendinga um brot alþjóðalögum þótt nú séu stundaðar hvalveiðar.

Fréttablaðið er nú augljóst málgagn Samfylkingarinnar, stefna blaðsins sveiflast eftir duttlungum og hagsmunum eigandans og ráðgjafa hans, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar (Baugsmanns). Nú hallar blaðið sér gegn Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar. Þar hófst í dag áróðursherferð fyrir auka-landsfundi í haust til að ýta Árna Páli til hliðar.

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag segir Sema Erla Serdar, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, að hafin sé umræða innan stjórnarinnar um næsta landsfund. Þá segir blaðið að fylgjendur Árna Páls telji flokkslög banna annan landsfund strax. Mikil ólga sé innan flokksins.