Laugardagur 11. 07. 15
Enn einu sinni er beðið niðurstöðu evru-ráðherrahópsins sem kom saman til fundar í Brussel í dag til að ræða sama mál og undanfarin tæp sex ár: hvað gera skuli við Grikki vegna skuldavanda þeirra. Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, sagði fyrir fundinn að hann yrði einstaklega erfiður. Jeroen Dijsselbloem, formaður hópsins, sagði að vandinn snerist ekki síst um trúnaðartraust í garð Grikkja.
Síðdegis birti Frankfurter Allgemeine Zeitung að Schäuble og ráðuneyti hans teldi um tvo kosti væri að ræða: (1) Grikkir hertu aðhaldið enn frekar, (2) Grikkir tækju sér „5 ára frí“ frá evru-aðild til að koma skikki á ríkisfjármál og efnahagsmál sín.
Spurningin um traust vaknar vegna þess að fyrir viku treystu grískir kjósendur Alexis Tsipras forsætisráðherra þegar hann hvatti þá til að hafna afarkostum lánardrottna. Um 61% fór að óskum hans. Í gær lagði hinn sami Tsipras hins vegar til á gríska þinginu og fékk samþykkt að ganga til móts við kröfur lánardrottnanna og jafnvel lengra en þeir vildu í síðustu viku.
Fullskipað leiðtogaráð ESB-ríkjanna hefur verið boðað til fundar í Brussel á morgun. Fundurinn verður ef til vill afboðaður nái fjármálaráðherrarnir ekki sameiginlegri niðurstöðu.
Verði samkomulag á þessum fundum á enn eftir að útfæra það og samþykkja í þeim ESB-ríkjum þar sem skylt er að bera það undir þjóðþingin, þar á meðal í Finnlandi, Eistlandi og Þýskalandi.
Heimildarmenn finnska ríkisútvarpsins YLE sögðu í kvöld að finnsk stjórnvöld styddu ekki tilboð Grikkja eins og það var lagt fyrir ráðherrahópinn en endanleg afstaða mótaðist á fundi hópsins. Alexander Stubb fjármálaráðherra hefði samráð við nefnd finnska þingsins sem veitti ráðherrum umboð á fundum ESB.
Þegar þetta er skrifað um klukkan 21.00 (23.00 í Brussel) segir Le Monde að unnið sé að frágangi tilkynningar frá evru-ráðherrahópnum og líklegt sé að Grikkjum verði sett frekari skilyrði. Þá segir The Guardian að Ítölum sé meira en nóg boðið og Matteo Renzi forsætisráðherra muni á morgun krefjast þess af Angelu Merkel Þýskalandskanslara að hún geri út um málið með Alexis Tsipras – mælirinn sé fullur!
ps. Fundi evru-ráðherrahópsins lauk án samkomulags um yfirlýsingu - nýr fundur boðaður að morgni sunndags kl. 11.00 á Brussel-tíma.