Fimmtudagur 02. 07. 15
Í Morgunblaðinu í morgun birtist frásögn af ferð blaðamanns á vinsæla ferðamannastaði á Gullna hringnum svonefnda, Þingvelli, Geysi og Gullfoss. Alls staðar var mikill mannfjöldi og ber frásögnin með sér að ýmsir ferðamannanna telja hvorki Ísland né Íslendinga búna undir að taka á móti hinum mikla fjölda fólks sem var á þessum stöðum.
Blaðamaðurinn Benedikt Bóas hitti Svisslendinginn Besel við Gullfoss. Frásögnin er eftirfarandi:
„Hann horfði gáttaður niður í fossinn og skildi ekki hvers vegna væru ekki meiri öryggiskröfur.
„Ísland er magnaður staður. Við vorum að koma frá Alaska og stoppum hér í nokkra daga áður en við förum heim til Sviss. Heima og í Alaska er öðruvísi farið með ferðamenn. Þar eru tollar víða, náttúran er gjaldskyld en hér er allt frítt og ekki mikið um öryggi.
Þegar ég gekk niður stíginn trúði ég ekki að það væri ekkert öryggisband, bara einn lítill spotti. Það fannst mér sérstakt. Ég er ekki búinn að vera hérna lengi en sé það strax að þið eruð ekki tilbúin að taka á móti svona mörgum ferðamönnum. Í Sviss eða öðrum ferðamannalöndum eru öryggisreglur mjög strangar en hér er engar. Kannski mun Ísland tapa sérstöðu sinni ef það verður bara hægt að skoða fossinn bak við glervegg eða eitthvað álíka. Hér er allt hrátt og ég kann ágætlega við það. Ég er hins vegar ekki viss um að þetta yrði leyft í Sviss.“
Svisslendingar eiga Rheinfall – Rínarfoss – við bæinn Neuhausen. Þeir kynna fossinn sem hinn stærsta í Evrópu – hvort þeir eiga við meginlandið eða álfuna er ekki ljóst. Öryggisráðstafanir við Rheinfall eru gífurlega miklar og mannvirkin gestum til varnar vekja jafnmikla athygli og fossinn sjálfur, að minnsta kosti í augum Íslendings. Gjaldtaka er við fossinn og ofurvakt.
Eitthvað má vera á milli þess sem Svisslendingar hafa gert og þess gjaldlausa frjálsræðis sem ríkir við íslenska fossa.
Óheppilegt var að tíma og kröftum skyldi varið í náttúrupassann sem var álíka dauðadæmdur frá upphafi og nýr flugvöllur í Hvassahrauni. Nú stefnir þó allt í að tíma og kröftum verði varið til að ræða hugmyndina um slíkan flugvöll enn á ný.