9.7.2015 23:40

Fimnmtudagur 09. 07. 15

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er um þessar mundir í Brussel og hitti í dag Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB, og staðfesti afturköllun umsóknar Íslands um ESB-aðild. Hann sagði við sjónvarpið eftir fundinn að sambandið við ESB væri „afslappaðra“ en það hefði áður verið. Orðalagið verður ekki skilið á annan veg en að samskiptin séu góð á grunni EES-samningsins og Schengen-samstarfsins.

Sigmundur Davíð sagði einnig við sjónvarpið að Grikkir færu úr evru-samstarfinu. Þetta sagði ráðherrann áður en sagt var frá tillögunum sem Grikkir áttu að skila í dag svo að fullskipað leiðtogaráð ESB gæti tekið afstöðu til þeirra á fundi sunnudaginn 12. júlí.

Í nýju tillögum gríska forsætisráðherrans segir að virðisaukaskattur á veitingastöðum verði hækkaður í 23% og í 13% á hótelgistingu. Þá er boðað að frá með lokum ársins 2016 hverfi ívilnanir á virðisaukaskatti á grísku eyjunum.

Gert er ráð fyrir hækkun skatta á almenn fyrirtæki og skipafélög. Þá verður skattar á lúxusvarning og auglýsingar í sjónvarpi tafarlaust hækkaðir.

Einkavæðingaráformum verður fram haldið en þau voru fryst þegar Alexis Tsipras komst til valda.

Á vefsíðu The Daily Telegraph segir í kvöld að Þjóðverjar láti nú loks undan þrýstingi ríkisstjórna margra landa og lykilstofnana um afskriftir skulda Grikkja. Þessi breyting á afstöðu þýsku ríkisstjórnarinnar kunni að rjúfa fimm mánaða þrátefli og koma í veg fyrir að evru-samstarfið springi á sunnudag.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði á Twitter í morgun að bærust raunhæfar tillögur frá Grikklandi yrði að svara þeim með raunhæfum tillögum frá lánardrottnum vegna skuldahlutfallsins [nú um 180% af VLF] til að skapa aðstæður til hagsbóta fyrir alla.

Sigmundur Davíð hittir Donald Tusk á morgun. Spurning er hvort forsætisráðherra verður sömu skoðunar um skammvinna evru-aðild Grikkja eftir þann fund.