Sunnudagur 26. 07. 15
Ingimar Karl Helgason breytti Reykjavík vikublaði í málgagn róttækra vinstrisinna. Auglýsendur vildu standa undir kostnaði við prentun og dreifingu þessa efnis. Nú sýnist mælirinn þó fullur. Ingimar Karl skrifar kveðju til lesenda sinna á vefsíðu blaðsins í dag. Honum kom mjög á óvart í gær að heyra fréttir um að útgáfa blaðsins hefði verið seld til Vefpressunnar sem lýtur stjórn Björns Inga Hrafnssonar.
Ingimar Karl vitnar í fráfarandi útgefanda sem hafi „nýlega talað um að fjölga síðum í Reykjavík vikublaði með haustinu og hef ég heldur verið að hugsa á þeim nótum en öðrum,“ segir Ingimar Karl. Hann telur sig hafa náð góðum árangri við ritstjórnina og bætir við:
„Svo til allir aðrir fjölmiðlar hafa tekið upp fréttir úr næstum hverju einasta tölublaði Reykjavíkur vikublaðs allra síðustu misserin. Viðbrögð lesenda við efnistökum okkar og umfjöllun í Reykjavík vikublaði hafa jafnframt verið mjög mikil. […]
Viðbrögð úr sumum afkimum ráðandi afla hafa líka styrkt okkur í þeirri trú að við höfum verið að gera eitthvað sem skiptir máli.“
Ritstjórinn hrósar sérstaklega Atla Þór Fanndal sem hafi „með elju sinni átt einna stærstan þátt í að lyfta Reykjavík vikublaði upp í úrvalsdeildina í blaðamennsku“. Fjölmiðill sem setji hagsmuni almennings í fyrsta sæti muni vilja fá hann til starfa.
Af bréfinu má ráða að Ingimar Karl býr sig undir að hætta sem ritstjóri. Hann telur sig líklega ekki eiga samleið með Birni Inga eða að rými sé fyrir sig innan hins sístækkandi fjölmiðlaveldis Vefpressunnar.
Hér hefur oftar en einu sinni verið lýst undrun yfir efnistökum á Reykjavík vikublaði undir ritstjórn Ingimars Karls. Sjálfsagt er að Ingimar Karl og Atli Þór hafi vettvang fyrir skrif sín en að hann sé í blaði sem dreift er á kostnað auglýsenda í hús í Reykjavík gat aldrei gengið til lengdar. Það sagði sig sjálft. Verður forvitnilegt að sjá hvar þeir félagar stinga niður penna næst.