5.7.2015 20:15

Sunnudagur 05. 07. 15

Brusselmönnum varð ekki um sel fyrir rúmri viku þegar Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, ákvað að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um skilyrði þríeykisins vegna skuldavanda Grikkja. Þríeykið, ESB, Seðlabanki evrunnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn,  krafðist þess að skuldum óreiðubanka yrði breytt í opinberar skuldir og velt yfir á herðar grískra skattgreiðenda. Talsmenn þríeykisins hafa krafist hærri skatta og lægri ríkisútgjalda.

Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í dag verða ekki til að minnka áhyggjur í Brussel.  Kosningaþátttakan var tæplega 60%, um 61% sögðu nei við afarkostunum og um 39% já. Spádómar um að mjótt yrði á munum reyndust rangir – sigur nei-manna er stærri en nokkurn grunaði. Enn einu sinni hafa skoðanakannanir reynst rangar. Nú er sagt að hærra hlutfall ungs fólks hafi kosið í Grikklandi en áður og það hafni afarkostunum, lífeyrisþegar hafi sagt já.

Tsipras tók áhættu með þjóðaratkvæðagreiðslu og sigraði. Grikkland er enn vagga lýðræðisins. Grikkir höfnuðu hinu yfirþjóðlega valdi og afarkostum þess.

Enginn veit hvað við tekur. Sambærilegt ástand hefur aldrei skapast innan ESB. Tsipras lofaði að 48 stundum eftir úrslitin yrðu bankar opnaðir að nýju eftir vikulanga lokun. Hvernig verður það gert? Með samhliða mynt (scrip)? Nú geta Grikkir ekki tekið nema 50 evrur á dag úr hraðbönkum vegna þess að 20 evru seðlar eru á þrotum. Þannig reynist Seðlabanki evrunnar sem þrautavarabanki. ESB vildi kannski ýta undir hræðslu Grikkja með því að svipta þá 20 evru-seðlum á lokametrunum fyrir kjördag?

Fréttir berast um að Alexis Tsipras hafi rætt við François Hollande Frakklandsforseta eftir að úrslitin urðu ljós. Frakkar segja Hollande brúarsmið milli Tsipras og Angelu Merkel Þýskalandskanslara sem ætlar til Parísar á morgun.

Merkel á meira undir eigin þingflokki en grískum kjósendum. Innan þingflokksins hefur vegur Wolfgangs Schäubles fjármálaráðherra vaxið vegna óþols hans gagnvart stjórnarherrunum í Aþenu. Hann var sýndur sem óvinur nr. 1 í kosningabaráttunni.

Næstu dagar munu leiða í ljós hvort úrslitin í Grikklandi lækka rostann í Brusselmönnum og verða til að breyta afstöðu þeirra til Grikkja. Lögum samkvæmt taka fjármálaráðherrar evru-ríkjanna hina formlegu ákvörðun sem kann að auka svigrúm grísku stjórnarinnar.