28.7.2015 18:00

Þriðjudagur 28. 07. 15

Flugum í dag með Icelandair til Genfar og þaðan með EasyJet til Nice við Miðjarðarhafsströnd Frakklands þar sem hitinn var um 27° þegar við gengum frá flugvellinum til að taka lestina í litla strandþorpið Beaulieu –sur-Mer þar sem blátt Miðjarðarhafið blasir við fyrir framan snarbrattar hlíðar. Hundruð báta eru í höfninni fyrir framan hótelið og snekkjur þar fyrir utan. Engin er þó eins stór og snekkja Allens sem var á ytri höfninni í Reykjavík gær.

Báðar flugvélar voru þéttsetnar en fjöldi farþega í flugstöðinni í Genf var hreint smáræði miðað við örtröðina í Keflavík. Við vorum með fyrra fallinu í flugstöð Leifs Eiríkssonar og losnuðum við lengri röð en 20 mínútur í öryggisskoðuninni.

Vélin tók sig á loft frá Keflavík 07.50 eða þar um bil og við lentum um 14.50 á ísl. tíma í Nice.