16.7.2015 17:30

Fimmtudagur 16. 07. 15

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sendi flokksmönnum neyðarkall í tölvubréfi í dag og segir meðal annars:

„Við getum ekki sætt okkur við 9,5% fylgi og verðum að bindast samtökum um að snúa þeirri stöðu við. Við lok landsfundarins í lok mars benti ég á að við þyrftum öll að vinna úr þeirri erfiðu stöðu – ég gæti það ekki einn. Það er enn sannfæring mín. Mestu skiptir að við stöndum saman um hugmyndina um samfylkingu. […]


Ef Samfylkingunni bregst ætlunarverkið veitir nafnið líka svar um hvað gerist: Ef við hættum að vera samfylking verðum við bara sundurfylking. Og það hlýtur að vera martröð okkar allra.


Ég vil þess vegna brýna okkur öll til að hugsa nú okkar ráð og velta því fyrir okkur hvert og eitt hvað við getum gert til að styrkja Samfylkinguna til að vera þá fjöldahreyfingu sem við höfum öll metnað til að hún verði á ný.“

Orðalagið á neyðarkallinu ber með sér að ástandið versni jafnt og þétt innan Samfylkingarinnar. Flokksformaður sem sendir frá sér slíka orðsendingu er kominn út í horn í eigin flokki. Hann er hættur að leiða flokkinn og kýs að gera vanda hans að vanda allra flokksmanna – þar er þó hver höndin nú þegar gegn annarri.

Furðuverk í nafni flokksins eru ekki til þess fallin að auka fylgi hans. Eitt slíkt var kynnt í dag þegar Dagur B. Eggertsson borgarstjóri óskaði eftir því að innanríkisráðherra stofnaði með sér undirbúningsfélag vegna nýs flugvallar í Hvassahrauni. Þetta til marks um pólitíska firringu sem setur æ meiri svip á Samfylkinguna og framgöngu trúnaðarmanna hennar.

Vilji Árni Páll Árnason flokksformaður leggja grunn að nýju trausti í sinn garð ætti hann að biðjast afsökunar á yfirlýsingum sem hann hefur látið falla undanfarin sex ár um aðild Íslands að ESB og upptöku evrunnar. Hann ætti ekki aðeins að biðjast afsökunar fyrir sína hönd heldur einnig fyrir hönd Samfylkingarinnar. Hún hefur að nokkru leyti verið eins-máls-flokkur í þágu evru- og ESB-aðildar.  Fyrir liggur að þessi stefna hefur gengið sér til húðar ásamt Samfylkingunni – flokkurinn getur reynt að bjarga sér úr klemmunni með opinberri afsökunarbeiðni.