30.12.2008 23:32

Þriðjudagur, 30. 12. 08.

Í dag kom í ljós, að enginn hafði sótt um embætti hins sérstaka saksóknara, svo að ég ákvað að framlengja umsóknarfrest til 12. janúar.

Að tillögu hæstaréttar skipaði ég Viðar Má Matthíasson varadómara í hæstarétti í stað Páls Hreinssonar, sem er formaður í rannsóknarnefnd á bankahruninu.

Umboðsmaður alþingis birti í dag álit sitt vegna kvörtunar í tilefni af skipun Þorsteins Davíðssonar í embætti héraðsdómara, sá hann „tiltekna annmarka“ á skipuninni.

Umboðsmaður gerði þá athugasemd við ákvörðun mína um vanhæfi mitt, að ég hefði tekið hana of seint í ferlinu. Ég tók hana, þegar málið var komið af umsagnarstigi og var lagt fyrir ráðherra til ákvörðunar. Ég hef almennt þann hátt á að koma ekki að ákvörðunum um skipanir í embætti, fyrr en á þessu stigi, og brá út ekki af þeirri reglu í þetta skipti.