23.12.2008 21:47

Þriðjudagur, 23. 12. 08.

Ríkisstjórnin kom saman til fundar klukkan 09.30 í fundarsal forsætisnefndar alþingis í þinghúsinu. Af þeim þremur fundarsölum, sem ríkisstjórnin hefur notað, á meðan ég hef setið í henni, er þessi sá þægilegasti. Einnig skiptir miklu, að rými er fyrir framan hann, þannig að menn ganga ekki beint í flasið á fréttamönnum, sem bíða með myndatökumönnum og sitja fyrir ráðherrum að fundi loknum.

Í fjárlögum ársins 2008 er veitt 17 milljónum króna til að koma upp öryggiskerfi í kringum Bessastaði með þessari skýringu í greinargerð:

„Gerð er tillaga um 17 m.kr. framlag vegna kostnaðar við öryggismál á Bessastöðum. Um er að ræða útgjöld við uppsetningu á öryggishliði og öryggismyndavélum, auk búnaðar og nauðsynlegra lagna sem tengjast verkinu.“

Uppsetningin á þessum öryggisbúnaði markar þáttaskil í gæslu við forsetasetrið og endurspeglar breytt viðhorf í þessu efni hjá Ólafi Ragnari Grímssyni.

Á fréttavefnum www.amx.is má í dag lesa forvitnilegar tilvitnanir í þá Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúa Samfylkingarinnar, um hálfkaraða Evrópustefnu Samfylkingarinnar og yfirboð Páls Magnússonar, formannsframbjóðanda í Framsóknarflokknum, gagnvart Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í ESB-aðildarmálum.