15.12.2008 22:43

Mánudagur, 15. 12. 08.

Síðdegis hitti ég Ingva Hrafn Jónsson á sjónvarpsstöð hans og ræddi hann við mig í tæpar 40 mínútur í þætti sínum Hrafnaþingi. Hann spurði um stjórnarsamstarfið, Davíð, Evrópusambandið og hve lengi ég yrði ráðherra – sem sagt öll heitustu málin!

Þátturinn var sendur út á sjónvarpsstöðinni Inn kl. 20.00 í kvöld og verður þar síðan á 2ja tíma fresti þennan sólarhring og þá má einnig nálgast hann á vefsíðunni www.inntv.is – sjón er sögu ríkari.

Jón Bjarki Magnússon, fyrrverandi blaðamaður á DV, greinir frá því á vefritinu NEI í dag að Reynir Traustason, ritstjóri DV, hafi stöðvað birtingu greinar sem hann skrifaði um Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans í byrjun nóvember. Fréttin hafi snúist um, að Sigurjón væri að koma á fót ráðgjafarfyrirtæki í húsnæði Landsbankans og að hann vonaðist eftir verkefnum frá Landsbankanum. Yfirlýsing Jóns Bjarka hefst á þessum orðum:

„Ég finn mig knúinn, samvisku minnar vegna, að segja frá því að frétt sem ég skrifaði fyrir DV þann 6. nóvember síðastliðinn um Sigurjón Þ. Árnason fyrrverandi bankastjóra Landsbankans var stöðvuð. Þetta geri ég vegna þess að það er skylda mín gagnvart lesendum og fólkinu í landinu að upplýsa um slík mál. Ég hef reynt að sannfæra sjálfan mig í meira en mánuð um hið gagnstæða. Að best væri að gleyma þessu og þegja. Ég hef hinsvegar ekki gleymt þessu atviki, og ég get ekki þagað yfir því lengur. Ég tel það ekki vera ásættanlegt að einhverjir ónefndir aðilar úti í bæ geti stöðvað eðlilegan fréttaflutning. Ég get ekki gerst sekur um að vera þátttakandi í leynimakki og blekkingu í krafti auðvalds á þessum síðustu og verstu tímum.“

Ritstjórar DV feðgarnir Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson sendu frá sér yfirlýsingu í tilefni af netfærslu Jóns Bjarka. Þar segir meðal annars:

Jón Bjarki segir að stórir aðilar hafi stöðvað frétt DV. Það er alrangt og óskiljanlegt hvernig hann hefur öðlast þann skilning?..

Fyrir tveimur vikum var honum falið að skrifa nærmynd um Jón Ásgeir Jóhannesson.

Hann sinnti því í engu.

Það er alfarið á valdi ritstjóra fjölmiðilsins hvaða fréttir birtast í blaðinu og á vefnum.

Allar kenningar um samsæri eru úr lausu lofti gripnar. Einfalt fréttamat var að litlu var

bætt við í frétt Jóns Bjarka?

Áréttað skal að hótanir eða ábendingar koma ekki í veg fyrir birtingu frétta í DV.

Aftur á móti er hver ábending vel þegin og farið í saumana á henni. Jón Bjarki hefur ekkert fyrir sér hvað það varðar að hótanir hafi átt sér stað. Hann staðhæfir að stórir aðilar hafi haft í hótunum við DV. Það er algjörlega óstaðfest ásökun og lýsir vel þeirri herferð sem hann hefur nú lagt upp í. Hann réðst gegn eigin blaði með tilhæfulausum ásökunum sem bera vott um afleita blaðamennsku. Hann hafði í hótunum við ritstjóra til að fá að birta óstaðfestar ásakanir sínar eða fara fram með þær sjálfur að öðrum kosti.“

Jón Bjarki svaraði spurningum í Kastljósi kvöldsins og birti þar upptöku af samtali sínum við Reyni Traustason. Á mbl.is segir: „Á máli Reynis í upptökunni mátti ráða að maður væri á barmi taugaáfalls vegna málsins. Reynir Traustason afþakkaði boð Kastljós um að mæta í þáttinn. Í yfirlýsingu frá honum fyrr í dag segir hinsvegar að það sé „alrangt og óskiljanlegt hvernig [Jón Bjarki] hefur getað öðlast þann skilning“ að utanaðkomandi aðilar hafi stöðvað fréttina. Á upptökunni má hinsvegar heyra Reyni skýrt og skilmerkilega halda gefa blaðamanninum nákvæmlega þær skýringar fyrir því að fréttin verði ekki birt. „Þarna eru bara öfl sem munu stúta okkur.““

Á mbl.is má einnig lesa samtal við Reyni:

„„Þetta er upptaka þar sem ég er að tala við blaðamann okkar á milli, ég er að útskýra það sem hefur gengið á dagana á undan og það er aldrei ætlað til opinberrar birtingar,“ sagði Reynir í samtali við blaðamann Morgunblaðsins. „Svo gerist það að sjónvarpið ákveður að taka þetta til opinberrar birtingar og það verður skoðað í framhaldinu. Ég lít á þetta sem siðblint athæfi, þetta er þannig að þarna er maður með segulbandstæki í vasanum. Hann er í vinnu hjá mér og tölum um það í upphafi að þetta sé trúnaðarsamtal og hann fellst á það. Og hvers konar blaðamaður er það sem á trúnaðarsamtal og birtir það svo?“

Reynir segist munu fara yfir málið með lögmönnum sínum á morgun og horfi sérstaklega til Kastljóssins, því framganga hans sé alvarlegri en „einhvers strákpjakks sem bregst trúnaði með þessum hætti.““

Á visir.is segir:

„Reynir sagðist ekki hafa íhugað láta af störfum sem ritstjóri blaðsins vegna málsins. ,,Þetta mál er ekki efni til þess í sjálfu sér að grípa til einhverja drastískra ákvörðunar. Ég hef alltaf verið til í að víkja ef ég met það svo að þetta mál skaði blaðið með einhverjum hætti. Ég met það ekki þannig að svo stöddu."“

Jón Bjarki sagði, að hugmyndin um nærmynd af Jóni Ásgeiri hefði verið nefnd við sig eftir nokkra bjóra á jólahlaðborði starfsmanna DV.

 Sigurður Hólm Gunnarssonar ritar í dag á síðuna skodun.is:

„Jón Bjarki Magnússon, fyrrverandi blaðamaður á DV, hefur nú sagt frá reynslu sinni af ritskoðun. Á Jón Bjarki hrós skilið fyrir að segja frá þessari reynslu opinberlega. Ritskoðun þrífst fyrst og fremst í skjóli starfsmanna fjölmiðla sem þora ekki að segja frá.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem íslenskir fjölmiðlar hafa orðið uppvísir að ritskoðun og reyndar ekki í fyrsta sinn heldur sem Reynir Traustason fer með ósannindi til að hylma yfir óheiðarleg vinnubrögð vinnuveitenda sinna.

Þegar ég upplýsti fyrir nokkrum árum að Jón Ásgeir hefði haft bein afskipti af fréttaflutningi á Vísir.is (þar sem ég var blaðamaður) kallaði Reynir Traustason málflutning minn slúðurkenndan. Eins og nú var hann þá óheppinn að því leyti að ég átti tölvupósta sem studdu mál mitt, auk þess sem ég var með vitni að samskiptum mínum við ritstjórn.

Eftir að mál mitt komst til umfjöllunar sögðu nokkrir fyrrverandi og núverandi blaðamenn mér frá því að þeir hefðu lent í svipaðri reynslu. Enginn hafði sagt frá reynslu sinni opinberlega af ýmsum ástæðum.“

Sjá meira efni hér: http://skodun.is/tag/ritskodun/

Við Reynir Traustason höfum skipst á orðsendingum í áranna rás, síðast hinn 27. september sl. eins og sjá má á færslu hér á síðuna þann dag, en þá áréttaði Reynir sannleiksást sína og heimtaði af mér afsökun, þar sem hann taldi mig hafa dregið hana í efa. Ég varð ekki við þeirri beiðni.