5.12.2008 22:28

Föstudagur, 05. 12. 08.

Ég talaði við þá félaga Þorgeir og Kristófer í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Þeir spurðu mig um einhliða upptöku annarrar myntar.

Skoðun mín er skýr, ég er andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu en hlynntur því að skipta um gjaldmiðil, sé það talið skynsamlegt af hagfræðingum.

Ástæðulaust er að óttast hótanir Percys Westerlunds, sendiherra ESB á Íslandi, eða annarra talsmanna ESB, sem hafa í hótunum um refsingu, tækju Íslendingar upp evru einhliða. Meiri þungavigtarmenn um málefni ESB en Westerlund eins og Michael Emerson hafa rökstutt, hve fráleitt er, að ESB gæti beitt okkur einhverjum þvingunum vegna einhliða ákvarðana okkar um gjaldmiðil - þeir hafa einfaldlega ekkert um það að segja.

Hér heima fyrir mega talsmenn aðildar að Evrópusambandinu ekki heyra minnst á einhliða upptöku nýs gjaldmiðils, af því að þeir vita sem er, að með þvi missa þeir þá ástæðu fyrir aðild, að krónan sé ónýt. Þeir vilja löngu óvissuleiðina frekar en hina greiðfæru.

Eiríkur Guðnason, seðlabankastjóri, ritaði grein í Morgunblaðiði í dag til varnar krónunni, ef rétt er skilið, en heldur var hún máttlaus og ósannfærandi. Þegar evran var tekin upp einhliða í Svartfjallalandi, voru þeir, sem höfðu vald á myntsláttunni, einnig óhressir. Hitt er, að hér eru rafræn viðskipti svo mikil, að seðlaprentun skiptir afkomu þjóðarbúsins í raun mjög litlu.