12.12.2008 20:53

Föstudagur, 12. 12. 08.

Lögregluskóla ríkisins var slitið í Bústaðakirkju klukkan 14.00 og flutti ég þar ávarp.

Klukkan 16.00 boðaði Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins til kynningarfundar í Valhöll og þá var vefsíðan www.evropunefnd.is einnig formlega opnuð en hún er upplýsinga- og samskiptasíða nefndarinnar. Ráða mátti af spurningum allra, sem spurðu Kristján Þór Júlíusson, formann nefndarinnar og alþingismann, á fundinum nálguðust viðfangsefnið úr þeirri átt, að þeir voru í augljósum vafa um gildi aðildar að Evrópusambandinu /ESB) fyrir Ísland.

Samtök atvinnulífsins hafa gert könnun meðal félagsmanna sinna og spurt um áhuga á aðild að ESB. Mér er sagt, að 43% hafi verið hlynntir, 40% andvígir og 17% óvissir. Hvers vegna skyldi niðurstaðan ekki birt?

Höfundur Staksteina býsnast yfir því í dag, að ég hafi skammað Valgerði Sverrisdóttur hér á síðunni í júlí 2007 fyrir að vilja taka upp evru einhliða en síðan hafi ég skipt um skoðun og aðhyllst einhliða gjaldmiðlaskipti.

Í lok Staksteina er spurt um sinnaskipti mín með nokkrum þjósti:

„Hvenær hætti upptaka evru án aðildar að Evrópusambandinu að vera glapræði? Eða sérfræðingarnir sem höfðu uppi varnaðarorð að vera marktækir?“

23. ágúst 2007 efndi Rannsóknamiðstöð um samfélags og efnahagsmál (RSE) til ráðstefnu um stöðu gjaldmiðla. Þar komu til sögunnar sérfróðir menn, sem hvöttu til þess, að Íslendingar skiptu einhliða um gjaldmiðil. Að ráðstefnunni lokinni ritaði ég grein í tímaritið Þjóðmál undir fyrirsögninni: Evran er ekki lengur ESB-gulrót. 

Að óreyndu hefði ég ætlað, að jafnmikill áhugamaður um þessi mál og höfundur Staksteina, þyrfti ekki að stunda spurningaleik um afstöðu mína til evru og gjaldmiðilsskipta. Hitt er svo sérstakt íhugunarefni, að fundið skuli að því, að menn leiti fyrir sér í Evrópumálum og móti sér skoðanir á grundvelli eigin athuguna. Til hvers er alltaf verið að hvetja til þess, að menn kynni sér kosta og galla?