Laugardagur, 13. 12. 08.
Á ruv.is segir í dag:
„Geir Haarde forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins segir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar setji landsfundi Sjálfstæðisflokksins ekki afarkosti. Ingibjörg segir stjórnarsamstarfinu sjálfhætt ef Sjálfstæðismenn loka á Evrópusambandsaðild á aukalandsfundi flokksins í janúar.
Geir Haarde segir að ummæli Ingibjargar hafi ekki áhrif á ákvarðanatöku á landsfundinum. Ingibjörg sagði í hádegisfréttum útvarpsins að ríkisstjórnin yrði að svara kalli almennings um mannabreytingar í Seðlabanka, Fjármálaeftirlitinu og í sjálfri ríkisstjórninni. Geir segir ekki hægt að útiloka neitt í þeim efnum.“
Ég drep á ummæli Ingibjargar Sólrúnar, sem eru tilefni þessarar fréttar, í pistli mínum í dag.
Af bloggsíðum samfylkingarfólks má ráða, að það gleðjist yfir, að Ingibjörg Sólrún hafi dregið athygli frá niðurskurði á fjárlögum með þessum afskiptum af innri málum Sjálfstæðisflokksins - kalli þetta smjörklípu formannsins.