9.12.2008 19:50

Þriðjudagur, 09. 12. 08.

Lögreglumenn brugðust við af snerpu í morgun, þegar spurðist rúmlega 09.00, að hópur mótmælenda hefði tekið sér stöðu við ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu í þann mund, sem ráðherrar komu til fundar þar fyrir 09.30. Skömmu fyrir þennan tíma renndi ég í hlað og héldu lögreglumenn mótmælendum í skefjum, svo að unnt væri að ganga upp tröppurnar.

Þegar fundi lauk kl. 11.00 var einn mótmælandi enn á staðnum. Á vefsíðunni www.amx.is segir af þessu tilefni undir fyrirsögninni: Vinstri/grænn litur á mótmælunum:

„Við upphaf mótmælanna við Ráðherrabústaðinn í dag vakti athygli að Drífa Snædal, framkvæmdastjóri vinstri grænna var mætt á stéttina fyrir fram húsið, þó ekki tæki hún með neinum hætti þátt í þeim.

Björg Eva Erlendsdóttir, sem ritstýrir smugan.is, var einnig á staðnum til að fylgjast með og flytja ítarlegar fréttir af mótmælunum. Vinstri grænir eru „kjölfestufjárfestir“ í smugan.is.

Við tjörnina hvísla fuglarnir að sá hópur fólks sem gengið hefur lengst í mótmælum sínum að undanförnu, sæki styrk sinn til vinstri grænna. Forystumenn flokksins séu yfirleitt ekki langt undan þegar látið er til skarar skríða. Þannig var Álfheiður Ingadóttir, þingmaður flokksins, við mótmælin hjá lögreglustöðinni.“

Allsherjarnefnd alþingi skilaði í dag sameiginlegu áliti um frumvarp mitt um sérstakan saksóknara.