17.12.2008 21:00

Miðvikudagur, 17. 12. 08.

Klukkan 14.15 var ég í Skógarhlíð og tók þátt í því með Guðlaugi Þór Þórðarsyni heilbrigðisráðherra að afhenda töskur með upplýsingum um, hvernig staðið skuli að því að greina slasaða á björgunarvettvangi.

Reynir Traustason, ritstjóri DV, situr sem fastast í stólnum sínum, þótt hann hafi gerst sekur um ósannsögli um samstatarfsmann sinn. Reynir rökstyður setu sína meðal annars með þessum orðum í leiðara DV í dag:

„Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri DV, bloggaði eftirfarandi um málið [mál Reynis, þegar hann stöðvaði birtingu fréttar um Sigurjón Þ. Árnason]: „Vont er, ef Sigurjónsmálið leiðir til afsagnar Reynis Traustasonar sem ritstjóra. Ég vona bara, að fundur starfsmanna á ritstjórn DV leiði ekki til slíks. Hann er hæfasti blaðamaður og ritstjóri landsins um þessar mundir. Jafnvel þótt honum hafi orðið á í messunni í Sigurjónsmálinu. Sannkallaða kraftaverkamenn þarf til að stýra áskriftardagblöðum nú á tímum og Reynir er einn fárra slíkra.“

Þetta eru hlý orð frá Jónasi sem leggur til að beðist verði afsökunar á mistökum. Þeirri áskorun hans er tekið. Almenningur og blaðamenn DV eru beðnir afsökunar á því að fréttin birtist ekki, jafnvel þótt það hefði kostað blaðið lífsneistann. Jafnframt er ljóst að aldrei aftur mun óttinn við afkomuna stýra því hvenær fréttir birtast. Fréttin um Sigurjón er sú lexía sem dugir.“

Sama dag og Reynir leitaði þannig halds og trausts hjá Jónasi bloggaði Símon Birgisson um reynslu sína sem blaðamaður á DV sumarið 2005, þegar blaðið laut ritstjórn Jónasar Kristjánssonar og Mikaels Torfasonar, sem skjaldaði Reyni í Kastljósi 16. desember. Símon segir frá því, að þeir Jónas og Mikael hafi neitað að birta tvær fréttir sem Símon skrifaði um ákæru í Baugsmálinu og samvinnu milli The Guardian í London og Baugsmiðilsins Fréttablaðsins um birtingu ákærunnar og viðtala við þá Jón Ásgeir og Jóhannes, föður hans. Lyktaði málinu þannig að Símon tilkynnti ritstjórunum uppsögn sína.

Eigendahollusta þeirra Jónasar og Mikaels var ekki minni er Reynis – skjallbandalagið á sér augljósa skýringu.

Nú er unnt að horfa á Hrafnaþing, viðtal Ingva Hrafns Jónssonar við mig hinn 15. desember á netinu