20.3.2008

Lögrelga, Evrópumál, Sjálfstæðisflokkur, Samfylking í Mannamáli.

Sigmundur Ernir Rúnarsson: Aðalgestur minn er Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, það standa mörg beitt spjót á Birni, meðal annars er talað um niðurskurð á fjárheimildum til lögreglu og tollgæslu suður með sjó og víðar um land ef til vill, en ég ætla aðallega að tala við hann um Evrópumálin og meint ósætti stjórnarflokkanna þar að lútandi. Björn hér í stórpólitísku viðtali.

Sigmundur Ernir:
Sæll og blessaður Björn og velkominn í þáttinn.

Björn Bjarnason: Blessaður, þakka þér fyrir.

Sigmundur Ernir:
Örstutt fyrst að þessum lögreglumálum, menn funda stíft suður með sjó og tala um yfirvofandi niðurskurð á þjónustustiginu þar. Verður dregið úr þjónustustiginu suður með sjó?

Björn Bjarnason: Ég sé það nú ekki, ég tel að þarna sé um það að ræða að menn haldi sig innan fjárheimildanna ...

Sigmundur Ernir: Sem þýðir niðurskurð.

Björn Bjarnason: Ja það þarf ekki að vera, við höfum ekki farið yfir málið ennþá, það þarf að skoða það betur af ráðuneytisins hálfu.

Sigmundur Ernir: En hvert er hið pólitíska svar, vegna þess að embættismenn geta svo sem rökrætt dögum saman um hvaða leiðir á að fara, en mun þetta þýða fyrir mig og fleiri landsmenn að biðraðir lengjast í Leifsstöð?

Björn Bjarnason: Það held ég nú ekki. Þú verður að átta þig á því að embættið er þrískipt, það eru öryggisverðir, en lögreglumenn koma ekki að þeim störfum, síðan eru tollverðir og loks eru lögreglumenn, þannig að hver deild starfar fyrir sig og það er ekki ætlunin að lengja neinar biðraðir með þessu. Það verður hins vegar að leysa þetta mál, það er alveg klárt.

Sigmundur Ernir: Þið tókuð yfir þennan kaleik fyrir nokkrum mánuðum. Var vitlaust gefið?

Björn Bjarnason: Ég segi það ekki að það hafi verið vitlaust gefið. Við tókum yfir þetta embætti 1. janúar 2007 og það má að segja að það sé að sínu leyti arfur frá tímum kalda stríðsins þetta embætti þar sem þar er undir einum hatti tollur, öryggisgæsla og löggæsla og landamæravarsla og það þarf að líta á hvern þátt fyrir sig. Dómsmálaráðuneytið ber ábyrgð á löggæslunni og landamæravörslunni, fjármálaráðuneytið er með tollinn og samgönguráðuneytið núna, þetta var allt undir utanríkisráðuneytinu en samgönguráðuneytið fer núna með öryggismálin varðandi farþegana. Við þurfum að samhæfa þessa krafta og það er ekki auðvelt í sjálfu sér að fara ofan í það allt á skömmum tíma. Við höfum haft ár til þess að fylgjast með þessu. Nú kemur þetta upp að það koma fram tillögur til okkar sem eru umfram heimildir fjárlaga og þá þarf að taka á málinu.

Sigmundur Ernir:
Hver eru þín pólitísku skilaboð til löggæslumanna, tollgæslu og lögreglunnar suður með sjó, munu þeir þurfa að draga saman seglin?

Björn Bjarnason: Ég sé ekki að það sé endilega í kortunum. Þetta eru sömu fjármunir núna og voru á síðasta ári sem eru til ráðstöfunar núna og þeim gekk mjög vel að sinna sínum störfum á síðasta ári. Það er ekkert öryggisstig sem er að lækka með þessu en það þarf að finna út úr þessu og það þarf að ljúka málinu, það er þessi óvissa sem er ekki góð fyrir þá.

Sigmundur Ernir: En þarf ekki einmitt þvert á móti að gefa í? Eigum við ekki heimtingu á því að til dæmis fíkniefnaleitin sé öflugri?

Björn Bjarnason: Fíkniefnaleitin er mjög öflug og þið veittuð nú - var það ekki? - verðlaun fíkniefnamönnum, bæði hér í höfuðborginni og líka á Suðurnesjum.

Sigmundur Ernir:
Jú jú, menn ársins 2007.

Björn Bjarnason: Já menn ársins hjá ykkur og þakka ykkur fyrir það, þannig að þeir unnu mjög gott starf og þið veittuð þeim góða viðurkenningu. Nú það var innan fjárheimilda sem voru svipaðar og við erum með í ár, þannig að við verðum að líta á þetta allt í góðu samhengi og fara yfir þetta.

Sigmundur Ernir: Þessi nýfallni dómur um lögregluna í Reykjavík, þar sem hún átti í útistöðum við menn í miðborginni og ekki sannaðist að tveir þeirra ættu hlut að máli, þetta hefur verið mjög umræddur dómur. Grundvallarspurningin er þessi; á að styrkja varnir löggæslunnar í Reykjavík? Eiga til dæmis lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu að ganga með byssur, sýnilegar byssur?

Björn Bjarnason:
Ég er nú ekki þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að vopna þá með byssum við dagleg störf, en þú veist að lögreglumenn á Íslandi hafa heimildir til að bera vopn og sérsveitarmenn eru með vopn við störf sín og á Keflavíkurflugvelli ganga vopnaðir lögreglumenn og það er gert ráð fyrir því að lögreglumenn hafi þjálfun til þess að beita skotvopnum. Ég tel hins vegar og hef sagt það áður og það er nú frétt um það í dag í einhverju blaði að það eigi að efla öryggi lögreglumanna meðal annars með varðhundum og það eigi að þjálfa hér upp hunda til þess að starfa með lögreglumönnum, ekki aðeins fíkniefnaleitarhunda heldur líka varðhunda og það sé mál sem eigi að líta til og við þurfum að gera ráðstafanir til þess að tryggja öryggi lögreglumanna, það er alveg klárt.

Sigmundur Ernir: En þú segir bara þvert nei, ekki sýnilegar byssur í miðborginni?

Björn Bjarnason:
Nei ég hef ekki tekið þá ákvörðun og það hefur ekki verið lagt fyrir mig. Það sem er verið að kanna núna eru þessi svokölluðu rafstuðtæki og það eru allskonar prófanir núna hjá ríkislögreglustjóra varðandi þau tæki og ég bíð eftir niðurstöðu þegar rannsóknirnar hafa farið fram, ég hef ekkert útilokað það.

Sigmundur Ernir: Ertu persónulega hlynntur því að lögreglan beri rafstuðtæki?

Björn Bjarnason: Ja ég er hlynntur því almennt að lögreglan geti starfað þannig að hún sé í eins öruggu umhverfi og unnt er að veita henni, það er mín skoðun. Ég hef líka beitt mér fyrir því að lögum væri breytt, það yrðu hertar refsingar fyrir árásir á lögreglumenn og gerðar ráðstafanir til að tryggja öryggi þeirra með bættri löggjöf og ef það þarf aukinn tækjabúnað og aukna árvekni með nýjum aðferðum þá er ég tilbúinn að skoða það allt saman.

Sigmundur Ernir: Rafstuð, já?

Björn Bjarnason:
Ja ég á eftir að fá tillögurnar, ég skal líta á það þegar ég fæ þær.

Sigmundur Ernir: En pólitíska svarið er?

Björn Bjarnason: Ja pólitíska svarið er þetta: Ég vil að það séu gerðar ráðstafanir til þess að auka öryggi lögreglumanna.

Sigmundir Ernir:
Gott og vel, förum í Evrópumálin. Björn Bjarnason, það er augljós pirringur að mínu viti á milli stjórnarflokkanna í málefnum Evrópusambandsins og evrunnar. Ingibjörg Sólrún sagði hér við mig fyrir viku að þessi andstaða Sjálfstæðisflokksins við Evrópusambandið væri arfur misskilinnar þjóðernispólitíkusar.

Björn Bjarnason: Í fyrsta lagi þá finnst mér nú ástæðulaust að tala niður til þeirra sem eru með þjóðernispólitík, það er viðhorf sem menn þurfa að hafa hvort sem þeir vilja fara í Evrópusamband eða ekki og það er hjá öllum þjóðum líka innan Evrópusambandsins að menn vilja halda í sitt þjóðerni.

Sigmundur Ernir: En er ekki Sjálfstæðisflokkurinn ...

Björn Bjarnason:
Evrópusambandið er ekki á móti ólíku þjóðerni, það er hins vegar samstarfsvettvangur ólíkra þjóða.

Sigmundur Ernir:
En er ekki Sjálfstæðisflokkurinn að dragast aftur úr í umræðunum um Evrópumálin?

Björn Bjarnason:
Nei það held ég ekki, ég held nefnilega að gallinn við þessa Evrópuumræðu sé sá, að það vantar vegvísi [í stað þess] að menn [séu að] tala um þetta endalaust. Þú sérð það nú þegar menn eru að leysa deilumál á alþjóðavettvangi þá tala menn um „roadmap“, að það þurfi einhvern vegvísi til þess að átta sig á því hvað á að gera. Ég held að við ættum að draga hann upp. Þetta er dregið upp í skýrslu sem kom út fyrir ári [frá nefnd sem] ég stýrði varðandi tengsl okkar við Evrópusambandið [Evrópunefnd]. Þar var farið nákvæmlega yfir hvernig málum er háttað í samskiptum okkar og Evrópusambandsins. Við þurfum hins vegar að átta okkur á því að þetta snýr ekki síður að heimavinnu sem við þurfum að vinna, við þurfum að gera þennan vegvísi, við þurfum að átta okkur á því.

Ætlum við að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um að hefja viðræður við Evrópusambandið? Ætlum við að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu ef viðræðurnar hefjast og fara fram og niðurstaða fæst ætlum við þá líka að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um þá niðurstöðu? Hvernig ætlum við að breyta stjórnarskránni? Hvaða reglur ætlum við að setja um þessar þjóðaratkvæðagreiðslur og annað slíkt? Þetta eru allt verkefni sem við getum alveg rætt hér og þurfum að ræða hér á pólitískum vettvangi áður en við förum að stilla mönnum upp við vegg og segja, heyrðu þú ert með eða á móti Evrópusambandinu. Það er ekki tímabært að tala svona, það er bara verið að dreifa umræðunni um Evrópumálin með því að láta eins og Sjálfstæðisflokkurinn sé eitthvað á móti því sérstaklega að nálgast Evrópusambandið frekar heldur en aðrir flokkar. Við þurfum að vinna miklu meira hér heima fyrir áður en að við getum farið að tala um þetta á þessum nótum.

Sigmundur Ernir: En nákvæmlega þessi ummæli Ingibjargar, arfur misskilinn af þjóðernispólitíkur. Þetta sýnir pirringinn á milli flokkanna.

Björn Bjarnason: Ég veit ekki hvað það sýnir, ég ætla nú ekki að nota orðið pirringur. Ég ætla að minnast á það, að 1995 að þá var mikill pirringur í kosningum, eftir að við höfðum verið í stjórn með Alþýðuflokknum frá 1991 til 1995, gengið inn í EES og gert EES-samninginn fyrir kosningarnar 1995, þá var pirringur á milli flokkanna, vegna þess að þá vildi Alþýðuflokkurinn sem var í samstarfi við okkur ganga lengra í átt til aðildar að Evrópusambandinu en við. Nú Alþýðuflokkurinn fór síðan úr stjórn og við mynduðum stjórn með Framsóknarflokknum.

Í kosningunum 1999 var Sighvatur Björgvinsson orðinn formaður Alþýðuflokksins og hann sagði: „Mér dettur ekki í hug að setja Evrópumálin á oddinn, við fórum svo illa út úr kosningunum 1995 og við lentum utan stjórnar,“ Ég hef skrifað oft um þetta og það er hægt að skoða þetta. [Hér vaknar] ákveðin spurning. Ætlar Samfylkingin að fara, að fara í þessi fótspor? Ég sé nú í Morgunblaðinu í morgun Reykjavíkurbréf sem segir að þetta [yfirlýsing Ingibjargar Sólrúnar um Evrópumálin] sé gullið tækifæri fyrir þá sem vilja ekki starfa með Samfylkingunni í ríkisstjórn og þarna sé að verða til einhver ný pólitísk konstelasjón út af þessum ummælum. Ég lít nú ekki þannig á. Ég held að það sé líka til þess að líta að menn tala oft svona um Evrópumálin einu ári eftir kosningar og svo detta þau niður eftir því sem lengra líður frá kosningunum og nær verða nýjar kosningar.

Sigmundur Ernir: En Björn, þetta er feikilega lifandi umræða í landinu akkúrat núna um Evrópumálin og evruna vegna ja stöðu efnahagsmála og svo framvegis. Ég skil ekki alveg Sjálfstæðisflokkinn, hann virðist vera einhvern veginn bara pólitískt stopp í þessu máli ...

Björn Bjarnason: Það er ekki rétt.

Sigmundur Ernir: Er það ekki svo? Þetta er arfur einhverrar umræðu sem var í flokknum, þetta var tabú virtist vera Evrópusambandið ...

Björn Bjarnason:
Nei nei, það hefur aldrei verið.

Sigmundur Ernir: Og þið eruð einhvern veginn að hökta ennþá í því skrefi.

Björn Bjarnason: Það er ekki rétt, þetta er einhver ímyndun og einhver ...

Sigmundur Ernir:
Þetta er ímyndun mjög margra.

Björn Bjarnason:
Já, það er einhver ímynd sem menn draga síðan ályktanir af. Sjálfstæðisflokkurinn er ekkert hræddur við að ræða Evrópumálin. Ég tel, að innan stjórnmálaflokkanna sé hvað mest þekking á Evrópumálunum í Sjálfstæðisflokknum og þar geti menn sest niður og rætt allar hliðar málanna, sem kannski er ekki hægt í öllum flokkum.

Sigmundur Ernir: En æ fleiri óbreyttir sjálfstæðismenn, maður heyrir það bara úti í öllu samfélaginu, æ fleiri óbreyttir sjálfstæðismenn og þingmenn meira að segja Sjálfstæðisflokksins, eins og Guðfinna Bjarnadóttir, eru farnir að tala í þá veru að þetta sé kostur sem þurfi að skoða mjög alvarlega.

Björn Bjarnason: Já, þá hlýtur það að koma upp á landsfundi flokksins og verða rætt þar, þegar menn hittast á landsfundinum og fara yfir málin þar. Það er eðlilegt. Sem betur fer er flokkurinn lifandi flokkur, þar sem svona umræður fara fram. Ég hef mína skoðun. Á ég að segja þér, að ég held líka, að ég sé sá ráðherra í ríkisstjórninni núna, sem mesta reynslu hef af samstarfi við Evrópusambandið. Ég er eini ráðherrann, sem sit á ráðherrafundum með Evrópusambandsráðherrunum í Schengen samstarfinu og ég hef mikla þekkingu á þessu. Ég tel, að hagsmuna okkar sé mjög vel gætt með þeirri skipan sem við höfum núna. Við höfum ekki nýtt öll þau tækifæri sem við höfum til þess að gæta okkar hagsmuna í samskiptum við Evrópusambandið. Við eigum að gera það, leggja áherslu á það og hljóta með því þá þjálfun sem við þurfum til þess að eiga nánara samstarf við Evrópusambandið, ef sú staða kemur upp, að menn vilji ganga í það. En fyrst og síðast þurfum við að taka ákvarðanir hér heima fyrir, hvernig við ætlum að standa að þessu, það er ekkert eins og við séum að fara í einhverja mátun í Brussel, það er ekki aðalatriðið, það liggur alveg ljóst fyrir og kemur fram í skýrslu Evrópunefndar og hefur komið fram hvað eftir annað, Evrópusambandinu er ekkert um megn að taka við okkur sem aðildarríki.

Sigmundur Ernir:
En hvað er að því að leita samninga og athuga hvað við fáum?

Björn Bjarnason: Ja fyrst þurfum við að átta okkur á því, eigum við að leita samninga án þess að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu hér um málið fyrst og leita eftir umboði hjá þjóðinni.

Sigmundur Ernir: Nei en bara þessi spurning, hvað er að því að leita samninga? Það er ekkert skuldbindandi.

Björn Bjarnason: Þú ferð ekkert í svona viðræður að leita að einhverju, annað hvort tekurðu ákvörðun um, að þú ætlir að ná því markmiði að komast inn í Evrópusambandið eða ekki. Þetta er ekki eins og að menn séu að leita að einhverju. Það þarf ekkert að leita. Það liggur alveg ljóst fyrir, að Evrópusambandið tekur okkur opnum örmum, þannig að það þarf ekkert að leita að neinu. Það er bara annað hvort að taka þessa ákvörðun og hvernig við ætlum að standa að málinu og þá stendur oftast hnífurinn í kúnni, þegar menn komast að þessum punkti hér í íslenskum stjórnmálum. Menn geta síðan talað [út og suður] og ef menn fá eitthvað kikk út úr því að segja að Sjálfstæðisflokkurinn sé í einhverjum vandræðum með málið þá er það bara kikk á fölskum forsendum. Það er bara misskilningur.

Sigmundur Ernir: Kikk á fölskum forsendum ....

Björn Bjarnason:
Ég er ekkert hræddur að ræða þetta mál.

Sigmundur Ernir:
Nei nei. En myndi þetta kljúfa Sjálfstæðisflokkinn ef það yrði látið sverfa til stáls á landsfundi?

Björn Bjarnason: Ég er þeirrar skoðunar að á landsfundi myndu menn takast á um málið og hvort það klofnaði flokkurinn eða ekki það ...

Sigmundur Ernir: En þitt mat?

Björn Bjarnason:
Ja mitt mat er það að þetta sé það stórt mál að þjóðin, eins og hefur gerst í Noregi, að þá myndi þjóðin skiptast í fylkingar, það er alveg klárt.

Sigmundur Ernir:
En flokkurinn, myndi hann klofna?

Björn Bjarnason:
Ja það er ekkert ólíklegt að hann geri það eins og aðrir flokkar. Þetta er mál, sem gengur þvert á alla flokka. Þess vegna er svo mikilvægt, að menn átti sig á þeim innlenda vegvísi sem þeir [þurfa að] hafa. Og hvaða stjórnmálamenn eru æstir í það að setja svona mál af stað, ef engir sérstakir hagsmunir krefjast þess, [mál], sem getur haft þessi áhrif á stjórnmálin? Er einhver þörf á því hér í okkar landi? Er það til þess að leysa efnahagsvandann að stofna til slíkra óeirða?

Sigmundur Ernir: Einhver sem er að hlusta á okkur núna Björn Bjarnason myndi segja sem svo, Björn Bjarnason er óskaplegt afturhald.

Björn Bjarnason:
Það er bara alrangt, ég er það alls ekki. En auðvitað geta menn verið ósammála mér, en hvaða orð eiga þeir að nota, mér finnst að orðið afturhald sé ósanngjarnt í þessu samhengi og ég held að það sé ekki hægt að tala þannig um mig og Evrópumálin að ég sé eitthvað afturhaldssamur. Ég hef bara mína skoðun. Ég tel, að Íslendingar geti vel gætt hagsmuna sinna með þeim samningum, sem við höfum núna og við höfum alla burði til þess ef við viljum.

Sigmundur Ernir:
Hvað ertu hægrisinnaður?

Björn Bjarnason: Ætli það sé ekki misjafnt svolítið eftir málaflokkum. Til dæmis þegar ég lagði fram mínar hugmyndir á sínum tíma um að leyfa einkaframtakinu að komast inn í háskólana, þá töldu menn mig einhvern mikinn frjálshyggjuman. Ég held að núna þegar litið er til baka hvað 10 árum síðar að þá sjái allir, hvað það hefur gjörbreytt allri háskólastarfsemi í landinu, að einkaframtakið fékk að njóta sín. Ég tel, að það hafi til dæmis ekki tekist sem skyldi varðandi grunnskólann og framhaldsskólann, sérstaklega grunnskólann, að þar hafi einkaframtakinu ekki verið hleypt nógu mikið inn. Ég er að þessu leyti frjálshyggjumaður og ef menn vilja kalla það svo. Ég vil, að einkareksturinn fái að njóta sín. Svo er ég núna með málaflokk eins og löggæslu, landhelgisgæslu og byggja þar upp, landhelgisgæslan, þar er alveg stórkostleg uppbygging, þar finnst mér að ríkið eigi að láta að sér kveða.

Sigmundur Ernir: Þú situr við hliðina á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í Alþingi ...

Björn Bjarnason: Það er rétt, bæði þingi og ríkisstjórninni, milli þeirra Þorgerðar Katrínar og hennar. Heldurðu að það sé ekki dásamlegt, ha?

Sigmundur Ernir: Maður getur ekki annað en brosað Björn, fyrir nokkrum misserum hefði maður sagt, á góðri ensku „over my dead body“ að þið tvö væruð að vinna saman í ríkisstjórn.

Björn Bjarnason: Sýnir það ekki bara líka styrkinn í þessari stjórn, að það séu ólíkir pólar sem hittast og skapa eitthvað nýtt fyrir þjóðfélagið.

Sigmundur Ernir: En hvernig gengur ykkur saman?

Björn Bjarnason: Ágætlega.

Sigmundur Ernir: Er enginn pirringur, pólitískur pirringur?

Björn Bjarnason: Ekki af minni hálfu, ekki af minni hálfu. Þú sást til dæmis, menn voru búnir að tala um það lengi að þetta varnarmálafrumvarp sem hún flutti [yrði ágreiningsefni okkar í milli]. Hver studdi það mest og best í þinginu og með góðri ræðu annar en ég? Þannig að ég bara tek afstöðu til málefna. Auðvitað get ég verið ósammála mínum samstarfsflokki en ég læt það ekki bitna á samstarfsmönnunum.

Sigmundur Ernir: En er það ekki verkefni Sjálfstæðisflokksins einmitt að halda Samfylkingunni frá völdum til þess að, þetta er einn stærsti svona pólitíski ja flokkurinn sem getur verið Sjálfstæðisflokknum skeinuhættur.

Björn Bjarnason:
Jú fyrir Sjálfstæðisflokkinn er það kannski ekki ...

Sigmundur Ernir:
Mogginn segir að þetta sé stórhættulegt fyrir ykkur.

Björn Bjarnason: Já Mogginn hefur ágætar skoðanir á mörgu og gaman að lesa það og [sá hefur] mikla reynslu af því að fjalla um stjórnmál,  sem skrifar þar mest ...

Sigmundur Ernir:
Ertu ósammála Mogganum að þessu leyti?

Björn Bjarnason:
Það sem ég ætla að segja við þig er þetta: Til dæmis sérðu hvað er að gerast í Þýskalandi þar sem tveir stórir flokkar fara að vinna saman, ólíkir flokkar og þeir taka höndum saman til að mynda meirihluta. Hvað gerist? Það verður til sterkur vinstri flokkur í Þýskalandi þar sem Oskar Lafontaine og gamlir kommúnistar frá Austur-Þýskalandi mynda sterkan vinstri flokk og höggva inn í raðir sósíaldemókratanna og reyna að toga þá frá hinum borgaralegu öflum. Kristilegir demókratar halda sinni stöðu, nú eitthvað svona upp og niður eins og gerist í kosningum en þeir halda sinni stöðu. Það er enginn að kljúfa þeirra flokk. Ég held, að Samfylkingin sé frekar kannski í þessari stöðu [þýsku sósíaldemókratnna], hún sé hrædd um að það geti orðið eitthvað afl til, öflugra afl heldur en vinstri/grænir eða vinstri/grænum takist að tala þannig til Samfylkingarinnar að þeir höggvi eitthvað inn í hennar raðir. Ég held að sé það [megi] kannski vera pólitísk umræða um þetta og menn eigi að beina athygli sinni frekar að þessu heldur en stöðu Sjálfstæðisflokksins, sem er ekki ógnað með þessum hætti. Og við sjáum það til dæmis núna í umræðunum um stóriðjumálin og orkumálin og allt það, þá er greinilegt að Samfylkingin er hrædd við vinstri/græna sem koma að henni úr þessari átt.

Sigmundur Ernir: Björn Bjarnason, að lokum varðandi borgarmálin, þú varst borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins fyrir allmörgum árum, hefði Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson átt að segja af sér í þeirri orrahríð sem yfir hann hefur gengið?

Björn Bjarnason: Ja, hann hefur gefið til kynna að hann ætli ekki að vera oddviti flokksins í komandi kosningum, hann situr ...

Sigmundur Ernir: En hefði hann átt að segja af sér?

Björn Bjarnason: Ég er ekki endilega á því að hann hefði átt að segja af sér, en staða hans hefur  veikst mjög mikið það er alveg ljóst. Ég hef nú fjallað um þetta mál frekar út frá aðferðafræðinni, sem var beitt. Ég tel, að það hafi verið mjög illa að þessu staðið síðastliðið haust að stofna þessi fyrirtæki öll og að öllu þessu möndli sem þarna var og gagnrýni það mjög harkalega.

Sigmundur Ernir: Þakka þér fyrir Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, fyrir að koma hér í þetta viðtal.