29.12.2008 20:34

Mánudagur, 29. 12. 08.

Fór síðdegis í Reykjanesbæ og sat þar fund með lögreglumönnum á Suðurnesjum, þar sem kynnt var nýtt skipurit lögregluliðsins og staðfest sú breyting, sem ákveðin hefur verið að tillögu þeirra Ólafs K. Ólafsson, sýslumanns Snæfellinga, Jóns Bjartmarz, yfirlögregluþjóns hjá ríkislögreglustjóra, og Halldórs Halldórssonar, fjármálastjóra lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en þeir tóku þrír að sér hinn 1. október sl. að leiða liðið inn í nýtt skipulag.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, sem tekur við lögreglustjóraembættinu hinn 1. janúar af Ólafi K. Ólafssyni, kynnti nýja skipuritið og svaraði spurningum lögreglumanna.

Að loknum lögreglumannafundinum hittum við fulltrúa sveitarstjórna á Suðurnesjum og var nýja skipulagið kynnt fyrir þeim og spurningum þeirra svarað.

Alþingi samþykkti breytingu á tollalögum, sem skyldi yfirstjórn tollamála frá lögreglustjóranum og setti undir tollstjóra, en nú er landið allt eitt tollumdæmi.

Með þessum ágætu og málefnalegu fundum í Reykjanesbæ lauk endurskipulagningu á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, sem ég kynnti í mars sl., þegar fyrir lá, að enn einu sinni stefndi í mikinn fjárhagsvanda hjá embættinu á þessu ári.

Miðað við allan hávaðann, sem var frá mars fram til loka september vegna tillagna minna um breytingar á embættinu, er fagnaðarefni, að lokaskrefið er stigið í góðri sátt og án þess, að menn séu í uppnámi.