18.12.2008 22:19

Fimmtudagur, 18. 12. 08.

Klukkan 13.30 var ég í Bændahöllinni og ræddi þar við fulltrúa bænda um efni skýrslu Evrópunefndar og lýsti skoðunum mínum á tengslum Íslands og Evrópusambandsins.

Þingstörfum er fram haldið og í dag urðu mörg frumvörp að lögum, þar á meðal um að fresta því að stofna embætti héraðssaksóknara um eitt ár.

Settur ríkislögreglustjóri gaf í dag út ákæru á hendur fólki tengdum Baugi vegna skattskila. Helgi Magnús Gunnarsson. saksóknari efnhagsbrota, kom að gerð ákærunnar, en helsta frétt á forsíðu Fréttablaðsins er um, að ekki sé nóg að gert í fjárveitingum til efnahagsbrotadeildar.

Við vinnslu þessarar fréttar hafði blaðamaðurinn samband við mig og svaraði ég á þann hátt, sem birtist í blaðinu. Fréttin um svar mitt er svona:

„Undrast áhuga Fréttablaðsins

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra undrast áhuga Fréttablaðsins á fækkun starfsmanna efnahagsbrotadeildar. Það kemur fram í tölvupósti þar sem hann svarar hluta af spurningum blaðsins vegna málsins.

„Fréttablaðið hefur sem Baugsmiðill tekið því almennt illa undanfarin misseri að unnið sé að rannsókn efnahagsbrota og hefur blaðið og eigendur þess gagnrýnt mig, þegar aflað hefur verið fjár til að styrkja rannsóknir og saksókn vegna efnahagsbrota og talið að þeim fjármunum væri betur varið til annarra hluta,“ skrifar Björn.

„Hvað veldur sinnaskiptum blaðsins? Mér finnst það fréttapunkturinn í þessu máli frekar en krafa fjárveitingavaldsins um aðhald í ríkisrekstri í viðleitni stjórnvalda til að draga úr skaða bankahrunsins á þjóðarbúið.““

Við athugun á þróun starfsmannamála hjá efnahagsbrotadeild sýnist Fréttablaðið líta fram hjá því, að sérstakur saksóknari var skipaður í Baugsmálinu og réð hann til sín samstarfsmenn, sem unnu að rannsókn og ákæru vegna efnahagsbrota. Nú hefur alþingi samþykkt lög um sérstakan saksóknara vegna bankahrunsins.

Hinn 8. desember 2006 fékk Arnþrúður Karlsdóttir til viðtals við sig á útvarpi Sögu Jóhannes Jónsson, kenndan við Bónus, í tilefni af því, að hann hafði þá nokkrum dögum áður gefið 21 milljón króna til Mæðrastyrksnefndar og Hjálparstofnunar kirkjunnar. Jóhannes gaf þessa skýringu á fjárhæðinni: Mér fannst vel til fundið að hafa upphæðina þessa, það er að segja 21 milljón. Það var það sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra fór fram á í aukafjárveitingu til þess að greiða sínum manni laun, það er að segja Sigurði Tómasi.

Sigurður Tómas Magnússon var hinn sérstaki saksóknari í Baugsmálinu og þannig var talað til mín vegna kostnaðar við störf embættis hans af forráðamönnum Baugs á þessum tíma. Nú býsnast flaggskip Baugsmiðlanna hins vegar yfir því, að ég hafi ekki gert nóg til að útvega fé til að berjast gegn efnahagsbrotum!