8.12.2008 20:09

Mánudagur, 08. 12. 08.

Ég var nýfarinn úr þinghúsinu, þegar hróp voru gerð af pöllunum, á meðan Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, var í ræðustól. Lögregla var kölluð á vettvang og voru sjö handteknir. Þingvörður var fluttur á slysavarðstofu vegna meiðsla og tveir lögreglumenn, kona og karl, voru bitin og sparkað í hinn þriðja.

Í leiðara Morgunblaðsins í dag segir:

„Hugmyndir um að taka upp evruna einhliða hér á landi, án þess að ganga í Evrópusambandið, hafa skotið upp kollinum með reglulegu millibili undanfarin ár. Reglulega hafa verið gerðar úttektir á málinu og þreifað á því við Evrópusambandið. Niðurstaðan er alltaf sú sama. Einhliða upptaka evru er ekki raunhæfur kostur.

Margir töldu að málið hefði verið afgreitt í skýrslu Evrópustefnunefndar, sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra veitti forystu.“

Ég er einn þeirra, sem taldi málið ekki afgreitt með skýrslu Evrópunefndarinnar, sem ég veitti forystu. Mér þótti nefndin ekki fá fullnægjandi svör um málið. Hélt ég því áfram að skoða það, eftir að nefndarstarfinu lauk, eins og þeir vita, sem fylgst hafa með skrifum mínum um það. Umræður síðustu vikna sýna einnig, að full ástæða er til að velta þessum kosti vel fyrir sér í núverandi vanda. 

Alonso Perez, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnar Ekvador, hélt í dag fyrirlestur í hátíðarsal Háskóla Íslands um einhliða upptöku dollars þar í landi árið 2000.  Af orðum hans í Kastljósi má ráða, að slík skipti ættu ekki að verða okkur ofviða.

Hér skiptast fjölmiðlar á að kalla á innlenda hagfræðinga til að segja af eða á um einhliða gjaldmiðlaskipti. Þeir komast ekki að einróma niðurstöðu frekar en svo oft áður.

Reynir Eyvindarson, verkfræðingur, ritar grein í Morgunblaðið í dag og hvetur sjálfstæðismenn til að yfirgefa flokk sinn. Meginrök hans eru þessi:

„Það er bara einn flokkur sem hefur ráðið vini sína og niðja í dómarastöður í trássi við mat til þess hæfra manna, einn flokkur sem hefur hjálpað dæmdum glæpamanni til að komast á þing fyrir flokkinn með því að gefa honum uppreisn æru. Einn flokkur hefur gefið fiskimiðin tryggum flokksmönnum sínum (jæja, Framsókn tók reyndar þátt í því), og einn flokkur var við stjórnvölinn allan tímann þegar Ísland sigldi í gjaldþrot.“

Fyrsta fullyrðingin um skipan „vina og niðja“ í dómarastöður er röng. Önnur fullyrðingin um að uppreist æru sé forsenda þess, að dæmdir menn geti boðið sig fram til þings er einnig röng. Þriðja fullyrðingin stenst ekki heldur, þegar til þess er litið, að Sjálfstæðisflokkurinn sat ekki í ríkisstjórn árið 1990, þegar kvótakerfið var endanlega fest í lög. Lokafullyrðingin lýsir ástandi, sem ekki varð, því að Ísland sigldi ekki í gjaldþrot.