3.12.2008 19:05

Miðvikudagur, 03. 12. 08.

Í þessum skrifuðu orðum er Sölvi Tryggvason í Íslandi í dag að sauma að Agnesi Bragadóttur, blaðamanni á Morgunblaðinu, vegna þess að hann telur hana hafa skrifað ógætilega um Jón Ásgeir Jóhannesson og Hannes Smárason. Sigurður G. Guðjónsson, hrl., er í þættinum en þau Agnes eru vikulegir gestir hjá Sölva, sem spurði Agnesi, hvernig henni litist á að Hreinn Loftsson, fyrrverandi stjórnarformaður Baugs, eignaðist Morgunblaðið. Sigurður G. telur fréttastofu RÚV vera komna í pólitískt stríð við stjórnendur RÚV.

Atli Gíslason, þingmaður vinstri/grænna, sker sig úr þeirri samstöðu, sem mótast hefur milli forystumanna stjórnmálaflokkanna undir forystu forseta alþingis vegna rannsóknarnefndar í tilefni af bankahruninu. Hann ber fyrir sig sjónarmið um hugsanlegt vanhæfi dómara og gefur þar með til kynna, að ekki hafi verið hugað að því til hlítar við gerð frumvarpsins, en eins og ég hef þegar sagt, var frumvarpið lengur í smíðum en ella vegna afstöðu vinstri/grænna, sem stóðu að lokum að flutningi þess.

Atli hreyfir ekki aðeins vanhæfissjónarmiðum vegna þessa frumvarps, því að hann gaf til kynna í umræðum um sérstakan saksóknara, að ég væri vanhæfur til að skipa þennan saksóknara vegna ummæla, sem ég hefði viðhaft í Baugsmálinu! Hæstiréttur hafnaði hins vegar þessari vanhæfiskröfu við meðferð Baugsmálsins og mannréttindadómstóllin í Strassborg hafði kæru vegna þessa að engu og vísaði henni frá.