4.12.2008 21:57

Fimmtudagur, 04. 12. 08.

Michael Emerson hefur gegnt mörgum trúnaðarstöðum á vettvangi Evrópusambandsins og þekkir innviði þess betur en nokkur hér á landi. Hann ritar í dag grein í Fréttablaðið til stuðnings einhliða upptöku evru. Sjónarmið hans eru allt önnur en Percy Westerlunds, sendiherra ESB gagnvart Íslandi, sem búsettur er í Ósló og lætur ekkert tækifæri ónotað til að hræða Íslendinga frá því að fara að þeim ráðum, sem Emerson gefur í grein sinni.

Emerson segir ekkert í lögum Evrópusambandsins eða alþjóðalögum sem bannar neinum að afla sér evra og nota í sparnað, viðskipti, bókhald og millifærslur. Evran er fyllilega innleysanlegur gjaldmiðill og engar svæðisbundnar takmarkanir við notkun hennar. Hann nefnir síðan hið sama til sögunnar og ég gerði hér á síðunni 12. júlí sl.

Hann segir: „Fjármálakreppuna, sem ríður nú yfir heiminn og hefur komið sérstaklega illa niður á Íslendingum, má sannarlega kalla sérstakar aðstæður; hún á rætur að rekja til hinna fjárhagslegu höfuðborga heims, sem hafa valdið Íslandi miklum búsifjum.“

Emerson segir ekkert kveðið á um um peningastefnu í EES-samningnum og því engin lagaleg stoð fyrir efnahagslegum refsiaðgerðum í garð Íslands. Slíkri kröfu yrði því hiklaust vísað frá af dómstólum ESB og EFTA. Það sé líka illmögulegt að rifta EES-samningnum við Ísland, því það krefðist einróma samkomulags aðildarríkjanna 27, sem sé ólíklegt að myndi nást.

Emerson segir, að tíminn muni lækna þau pólitísku sár, sem kunni að myndast í samskiptum Íslands og ESB með einhliða ákvörðun Íslendinga um evru og segir réttilega, að fyrir Íslendinga sé spurningin um gjaldmiðilinn brýn og aðkallandi, spurningin um inngöngu í ESB sé það ekki.

Þegar þetta er lesið, hljóta ýmsir að líta í eigin barm, sem hafa látist vita, að okkur yrði voðinn vís, ef við tækjum ákvörðun um evruna á eigin forsendum en ekki Evrópusambandsins.