2.12.2008 21:30

Þriðjudagur, 02. 12. 08.

Klukkan 17.00 var ég Iðnó á fundi hverfafélaga sjálfstæðismanna í Vestur- og miðbæ og Austurbæ-Norðurmýri um efnið: Ísland og öll hin löndin. Vorum við Bjarni Benediktsson, alþingismaður, frummælendur og var lagt fyrir okkur að svara þessum spurningum:


· Er Ísland að einangrast?
·         Hvaða kostir standa opnir í gjaldeyrismálum?
·         Hvernig er vænlegast að vega kosti og galla ESB aðildar?

Sagt er frá fundinum á mbl.is og nær sú frásögn nokkru af því, sem kom fram.

Kári Sölmundarson setti fundinn fyrir hönd fundarboðenda, hann bloggar einnig um hann og segir:

„Sem annar af skipuleggjendum þessa fundar var ég mjög ánægður með hann og tel fundi sem þennan sanni fyrir mér tilganginn með því að taka þátt í pólitísku starfi á milli kosninga eða vera “dindill” í Sjálfstæðisflokknum eins og Egill Helgason kallaði mig á heimasíðu sinni. Þarna voru málefnin rædd á opinn og jákvæðan máta og án upphrópanna sem fylgt hafa hinum svokölluðu “mótmælafundum”.  Þarna kom í fyrsta sinn fram vilji Bjarna til að skoða aðild að Sambandinu þótt hann viðurkenndi að það eina sem við hugsanlega höfum þangað að sækja sé gjaldmiðill sem að mörgu leiti á undir högg að sækja.

Það sem ekki kemur fram í frétt mbl.is, er að allir fundarmenn sem tóku til máls voru eindregið á móti því að sækja um aðild að Sambandinu og sáu alla kosti betri í gjaldmiðilsmálum en að ganga í ESB til að taka upp Euro.

Eftir þennan fund og fleiri sem ég hef sótt er ég mjög efins um að á næsta landsfundi Sjálfstæðisflokksins verði stefnan sett á Evrópu.“

Ég tek undir með Kára um einarða andstöðu þeirra, sem spurðu okkur Bjarna, gegn ESB. Þar er greinilega um djúpa sannfæringu hjá mörgum að ræða og verður henni ekki haggað með mati á kostum og göllum ESB-aðildar.

Í tilefni af fullveldisdeginum ritaði ég grein á nýjan vefmiðil amx.is, sem hóf göngu sína í dag. Leiði ég líkur að því, að 90 ára sé fullveldið orðið of gamalt fyrir ESB-sinna.