Sunnudagur, 28. 12. 08.
Í Hönnunarsafninu við Garðatorg í Garðabæ er forvitnileg sýning á íslenskum jólaskeiðum.
Áhugamenn um lestur á netinu hafa tekið eftir því, að Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, hefur skrifað greinar á vefsíðuna www.amx.is og www.evropunefnd.is , en það er umræðuvettvangur sjálfstæðismanna um Evrópumál í aðdraganda landsfundarins 29. janúar.
Viðbrögðin við greinum Styrmis hafa verið mikil en ómálefnalegust á vefsíðu Egils Helgasonar, þar sem nafnleysingjar vaða uppi og ausa úr skálum reiði eða fávisku. Er með nokkrum ólíkindum, að Egill skuli sætta sig við, að þessi ósköp birtist á síðu undir nafni hans.
Mbl.is tilkynnti, að frá og með næstu áramótum yrðu menn að birta þar blogg-athugasemdir undir nafni.
Það hlýtur aðeins að vera spurning um tíma, hvenær verður látið reyna á ábyrgð þeirra, sem eru farvegir fyrir árásir nafnleysingja á nafngreinda menn á netinu.
Í dag ritaði ég pistil um efnahagsbrot hér á síðuna.