10.12.2008 21:16

Miðvikudagur, 10.12. 08.

Alþingi samþykkti í dag samhljóða frumvarp mitt um sérstakan saksóknara til að rannsaka og hugsanlega ákæra í tilefni af saknæmum brotum vegna bankahrunsins. Næsta skref er að auglýsa embættið en frestur fyrir umsækjendur er tvær vikur, lögum samkvæmt. Í lögunum er mælt fyrir um hæfiskröfur umsækjenda en þess jafnframt getið, að 70 ára aldursregla gildi ekki og dómurum verði veitt leyfi frá starfi, verði þeir skipaðir.

Nú eru um tveir mánuðir liðnir frá því að ég kynnti í þingræðu áform mín um sérstakan saksóknara. Ég held, að á þessum tíma hafi öllum orðið æ betur ljóst, hve mikilvægt er að haga skipan mála á þennan veg. Í ræðunni varaði ég við nornaveiðum vegna bankahrunsins og endurtek þau varnaðarorð.

Því miður hefur margt gerst, sem vekur tortryggni og jafnvel ótta um, að ekki sé gætt fyllstu varúðar við meðferð gagna eða eigna eftir hrunið. Að mínu áliti er gagnsæi ekki nægilega mikið í störfum fjármálaeftirlitsins, meira að segja ekki gagnvart viðskiptaráðherra eins og birst hefur í umræðum um athugun KPMG á Glitni banka - umræðum, sem leiddu loks til þess, að KPMG dró sig í hlé. Í því sambandi hefðu viðbrögð við kortlagningu á vegum ríkissaksóknara á fyrstu stigum málsins, átt að hvetja til varúðar. Þar taldi ég ómaklega vegið að grandvörum embættismönnum, en allt kom fyrir ekki. 

Hér er skemmtileg frétt úr breska þinginu.

Ég óska Jóhönnu Kristjónsdóttur innilega til hamingju með heiðurinn.