16.12.2008 18:55

Þriðjudagur, 16. 12. 08.

Þegar komið var til ríkisstjórnarfundar í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu kl. 09.20 í morgun, mælti lögreglan með því, að við færum inn í garð bústaðarins frá Suðurgötu og þaðan inn um eldhúsinnganginn.

Tæplega hundrað manna hópur mótmælenda hafði brugðist við hvatningu um að koma að bústaðnum til að hindra að ríkisstjórn gæti fundað þar. Meðal þeirra, sem hvöttu til mótmælanna var Eva Hauksdóttir í Nornabúðinni við Vesturgötu, en hún varð fréttaefni, þegar hún kom með gjallarhorn að lögreglustöðinni á dögunum til að hvetja fólk til að bjarga Hauki, syni sínum, úr prísundinni. Nokkrum dögum síðar eða 1. desember var hún með svartagaldur við stjórnarráðshúsið og hitti síðan seðlabankastjórnina í húsakynnum hennar.

Aðgerðasinnar voru horfnir af vettvangi, þegar ríkisstjórnarfundinum lauk. Lögregla hélt vel á málum og enginn var handtekinn.

Evrópumál eru mjög til umræðu á vefsíðunni Andríki er birt ótrúleg frásögn af fundi, sem Vaclav Klaus, forseti Tékklands, átti með þingmönnum af þingi Evrópusambandsins.

Þessi frásögn af forsetahöllinni í Prag bliknar þó í samanburði við frásagnir af símtali Reynis Traustasonar og Jóns Bjarka Magnússonar, sem ég sagði frá hér á síðunni í gær. Undir kvöld gaf Reynir út yfirlýsingu, þar sem segir meðal annars: „Í því tveggja manna trúnaðarsamtali sem átti sér stað fékk starfsmaðurinn hins vegar óvenjulega innsýn inn í baráttu sem frjáls fjölmiðill þarf að heyja.“ Reynir harmar, að RÚV hafi birt upptöku af símtalinu „óklippta“(!). Yfirlýsingunni lýkur á þessum orðum:

„Að lokum er komið þökkum til þeirra fjölmörgu sem undanfarinn sólarhring hafa séð ástæðu til að gerast áskrifendur blaðsins og munu fá að njóta þeirrar upplýsandi umfjöllunar sem DV hefur leitt að undanförnu.“

Þá vitum við það!

Í Íslandi í dag á Stöð 2 ræddu þau Agnes Bragadóttir blaðamaður og Sigurður G. Guðjónsson hrl. um Reyni Traustason og sögðu bæði, að hann ætti að hætta sem ritstjóri. Agnes vildi einnig, að hann yrði rekinn úr Blaðamannafélagi Íslands.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, varaformaður Blaðamannafélags Íslands, var í Kastljósi með Mikael Torfasyni, fyrrverandi ritstjóra DV, þau töluðu mildilegar um Reyni en Agnes og Sigurður G. og ráði Þóra verður Reynir ekki rekinn úr blaðamannafélaginu, því að hún treysti sér ekki til að taka afstöðu! - Þóra Kristín virtist raunar telja við hæfi að leggja að jöfnu að ræða við Reyni Traustason og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, menntamálaráðherra, í báðum tilvikum væri gott að hafa leynda hljóðnema. Spyrja má: Sætta íslenskir fjölmiðlamenn sig við, að þannig sé talað af umboðsmanni þeirra um þetta mál? Hafi Reynir Traustason veikt trúðverðugleika fjölmiðla, hvað segja fjölmiðlamenn um málsvörn Þóru Kristínar?