21.12.2008 18:07

Sunnudagur, 21. 12. 08.

Daginn tekur nú að lengja að nýju. Veðrið var milt til gönguferðar í dag. Snjórinn hafði ekki verið troðinn á göngustíg í Öskjuhlíðinni, en hann var ekki of þungur undir fæti. Framkvæmdum er haldið áfram við hús Háskólans í Reykjavík í Vatnsmýrinni og sýnist unnið við að glerja neðstu hæðina, þótt ekki sé lokið við hina efstu.

Eiríkur Bergmann Einarsson, Evrópusérfræðingur á Bifröst, segir í grein í Fréttablaðinu í gær, að Íslendingar hafi ekki kosið að nýta fullveldisrétt sinn í stofnunum Evrópusambandsins. Fyrir þá, sem fylgjast með því, hvernig Ísland notar rétt sinn á grundvelli samningsins um evrópska efnahagssvæðið eða Schengen-samstarfsins, er þessi fullyrðing úr lausu lofti gripin.

Þá má vekja athygli á því, að tillögur Evrópunefndar, sem lauk störfum í mars 2007, miða að því, að Íslendingar nýti fullveldisrétt sinn enn meira en gert hefur verið til að gæta hagsmuna sinna í Brussel. Aðild að Evrópusambandinu er alls ekki skilyrði þess að nýta fullveldisréttinn í Brussel - samningurinn um evrópska efnahagssvæðið (EES) gefur Íslendingum gott tækifæri til þess.

Málflutningur aðildarsinna er ekki trúverðugur, þegar hann byggist að verulegu leyti á því, að gera lítið úr stöðu Íslendingar gagnvart Evrópusambandinu á grundvelli EES-samningsins.

Ég vek athygli lesenda síðu minnar, að nýtt hefti af tímaritinu Þjóðmálum kom út fyrir skömmu og er þar margt forvitnilegt að finna.

Klukkan 20.30 var ég Grafarvogskirkju og hlýddi á jólatónleika Lögreglukórs Reykjavíkur. Kirkjan var þéttsetin og var kórnum, einsöngvurum, Önnu Margréti Óskarsdóttur og Eiríki Hreini Helgasyni, hljóðfæraleikurum og Guðlaugi Viktorssyni, stjórnandi, vel fagnað.