20.12.2008 21:18

Laugardagur, 20. 12. 08.

Alþingi kom saman til fundar klukkan 09.30 í morgun og lauk fundum um 17.30. Nokkur mál urðu að lögum en fjárlög ársins 2009 og fjáraukalög ársins 2008 eru enn óafgreidd.

Fyrir nokkru gerði ég hér á siðunni athugasemdir við Morgunblaðs-grein Reynis Eyvindarsonar, þar sem hann hvatti lesendur til að yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn. Reynir svarar þessum athugasemdum í Morgunblaði, sem dreift er í dag en hefur útgáfudag á morgun.

Reynir telur, að óheimilt sé að skipa Þorstein Davíðsson og Ólaf Börk Þorvaldsson dómara, af því að þeir tengist Davíð Oddssyni. Ofstæki af þessum toga er ómálefnalegt og dæmir sig sjálft.

Reynir bendir á, að þeir, sem hafi gerst sekir eftir dómi um „verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti“ þurfi uppreist æru til að geta boðið sig fram til þings. Því fer sem betur fer fjarri, að allir dómar séu um brot af þessu tagi, þess vegna þurfa ekki allir dæmdir menn uppreist æru til að geta boðið sig fram til þings. Séu lagaskilyrði fyrir hendi, er auk þess skylt að veita uppreist æru sé þess óskað.

Ég ætla ekki að deila við Reyni um sérgrein hans, verkfræði. Ef til vill þarf lögfræðikunnáttu til að átta sig á því, sem ég sagði um uppreist æru og þingmennsku.

Reynir getur alls ekki kennt Sjálfstæðisflokknum einum um kvótakerfið og hvatt fólk til að yfirgefa flokkinn og ganga í aðra flokka þess vegna. Hann staðfestir í svari sínu til mín, að allir flokkar eða forverar þeirra nema Frjálslyndi flokkurinn hafa komið að útfærslu kvótakerfisins á einn eða annan veg.

Reynir viðurkennir, að Ísland sé ekki gjaldþrota en lýkur grein sinni á þeim orðum, að Ísland sé meira en gjaldþrota!

Ég geri ekki lítið úr rökræðum af þessu tagi, þótt þær skili í raun engu, enda er Reynir fyrst og síðast að „pönkast“ á Sjálfstæðisflokknum, svo að vitnað sé í Reyni Traustason, ritstjóra DV. Tilgangurinn er að gera hlut Sjálfstæðisflokksins sem verstan, hvað sem tautar og raular.

Ragnarök fjórða og síðasta óperan í Niflungahring Richards Wagners var sýnd í stv2 í kvöld í uppfærslu Konunglegu sænsku óperunnar.