26.2.1999

UT99 ráðstefna um upplýsingatækni í skólastarfi

UT 99 Menntaskólanum í Kópavogi 26. febrúar 1999

 



Í upphafi máls míns vil ég bjóða ykkur öll innilega velkomin til þessarar ráðstefnu um upplýsingatækni í skólastarfi. Er gleðilegt að sjá, hve margir hafa sýnt því áhuga að koma hingað í Menntaskólann í Kópavogi til þátttöku í því starfi, sem fram fer í dag og á morgun og miðar að því að miðla fróðleik um stöðu okkar Íslendinga á þessu mikilvæga sviði.



Í menntamálaráðuneytinu stóðum við frammi fyrir því um mitt síðasta ár, að þróunin í upplýsingatækni á sviði skólamála var orðin svo umfangsmikil og ör, að ógjörningur var að henda reiður á öllu, sem var að gerast. Ráðuneytið hafði mótað stefnu í málinu og kynnt hana snemma árs 1996. Síðan hafði ríkisstjórnin lagt fram áætlun sína um Ísland og upplýsingasamfélagið, þar sem menntamálum var skipað í öndvegi. Loks blasti við, að í fjárlögum 1999 yrði í fyrsta sinn veitt fé til verkefna á sviði upplýsingatækni.



Við urðum að fá svar við þeirri spurningu, hvernig íslenska skólakerfið stæði andspænis upplýsingatækninni. Eftir nokkrar vangaveltur varð niðurstaðan sú, að efnt skyldi til kynningarráðstefnu. Við skyldum kalla þá saman, sem væru að vinna að þróun upplýsingatækni í skólastarfi, gefa þeim kost á að bera saman bækur sínar og sýna afrakstur af vinnu sinni um leið og tækifæri gæfist til að rýna inn í framtíðina.



 Á þessum forsendum er boðað til þessarar ráðstefnu, sem nú er að hefjast. Umfang hennar staðfestir best réttmæti þess að kalla hana saman. Hafa sjaldan verið haldnar ráðstefnur hér á landi með 80 til 90 fyrirlesurum. Er von mín, að allir finni eitthvað við sitt hæfi og hin mikla undirbúningsvinna skili þeim árangri, sem að er stefnt.



Krafan um íslenska tungu í tölvuheiminum er skýr og ótvíræð. Samningurinn við Microsoft frá 20. janúar síðastliðnum felur í sér mikla viðurkenningu á réttmæti þessarar kröfu. Næsta stórverkefni verður að beita tungutækninni í þágu íslenskunnar.



Þegar rætt er um upplýsingatækni í skólastarfi líta margar þjóðir öfundaraugum til okkar Íslendinga. Útbreiðsla þessarar tækni er hjá okkur sprottin úr grasrótinni, ef þannig má að orði komast. Hún er ekki komin inn í skólana fyrir valdboð að ofan.



Vagga hennar var á sínum tíma hjá Pétri Þorsteinssyni á Kópaskeri. Stefna menntamálaráðuneytisins frá því í febrúar 1996 auðveldaði ráðuneytinu að taka ákvarðanir sínar, þegar Ísmennt hafði þróast með þeim hætti, að eðlilegt var, að skólakerfið tæki hana í fóstur.



 Síðan eru aðeins tæplega þrjú ár og breytingarnar eru í einu orði sagt með ólíkindum. Við höfum þó ekki náð endimörkum vaxtar á þessu sviði frekar en svo mörgum öðrum þegar litið er til framfara í íslensku menntakerfi. Það er þvert á móti fyrst núna, sem við erum að hrinda hinni markvissu stefnu skipulega í framkvæmd. 



Ég nefni þrjú dæmi.



Í fyrsta lagi eru að taka gildi námskrár fyrir grunnskólann og framhaldsskólann, þar sem upplýsingatæknin gengur þvert á allar námsgreinar og upplýsinga- og tæknimennt er skilgreind sem sérstök námsgrein í grunnskóla og námsbraut í framhaldsskóla.



 Í öðru lagi hefur verið ákveðið að verja allt að 43 milljónum króna sérstaklega til þess að undir stjórn Námsgagnastofnunar sé unnt að þróa kennsluhugbúnað, sem á að nýtast bæði í grunnskólum og framhaldsskólum.



Í þriðja lagi hefur verið tryggt sérstakt fjármagn til Rannsóknarráðs Íslands, 580 milljónir króna, til að veita styrki til rannsókna á sviði upplýsingatækni og umhverfismála á næstu árum. Þessi þrjú atriði, námið, kennsluhugbúnaðurinn og rannsóknirnar eru allt greinar á sama meiði.



Að fleiru þarf að huga. Búa þarf kennara sem best undir störf við nýjar aðstæður. Menntun og endurmenntun kennara tekur mið af þessu. Efla þarf þróunarstarf í skólum og hefur ráðuneytið valið þrjá grunnskóla og þrjá framhaldsskóla í því skyni.



Landssíminn hf. hefur heitið stuðningi við þróunarskólana. Er frumkvæði fyrirtækisins í því efni mikils metið af ráðuneytinu. Þróunarstarf á þessu sviði ber ekki árangur nema með samvinnu skóla og fyrirtækja.



Skólastarf er nú að brjótast undan hinum hefðbundna og aldagamla ramma fyrir tilstilli hinnar nýju tækni. Skólastofa framtíðarinnar verður kynnt hér á ráðstefnunni, hún verður þó ekki einungis í hefðbundnum skólahúsum heldur allsstaðar, þar sem menn geta sest við tölvu.



Fjarkennslunni vex stöðugt fiskur um hrygg, og verður órjúfanlegur þáttur í íslensku menntakerfi í nánustu framtíð. Menntamálaráðuneytið telur mikilvægt, að hugbúnaður fyrir fjarkennslu sé samræmdur eftir því sem kostur er.



Á vegum ráðuneytisins hefur verið unnið að útboði á hugbúnaði fyrir fjarkennslu. Markmiðið er að freista þess að samræma fjarkennsluhætti og stuðla að því að auðvelda samnýtingu á efni milli skóla og kennara. Framboð á fjarkennsluefni eykst jafnt og þétt. Til lengdar verður gerð þessa efnis og þjónusta í kringum það ekki bundin við eina stofnun. Spurningin verður frekar um það, hvort farið er að kröfum og markmiðum námskráa og hvernig staðið er að samskiptum við nemendur.



Góðir áheyrendur!



Af þeim fjölmörgu þáttum, sem verða kynntir og ræddir á þessari ráðstefnu, sést best, hve viðamikið og spennandi þetta nýja viðfangsefni í skólastarfi er. Hugmyndaríkt og framtakssamt fólk hefur fleiri tækifæri en nokkru sinni fyrr til að láta að sér kveða við þróun og mótun skólastarfs. Hlutur nemenda er ekki síst mikils virði. Er sérstakt fagnaðarefni, hve víða þeir leggja hart að sér í og utan skólatíma við að búa til verkefni og kynningarefni á netinu eða á annan tölvutækan hátt.



Ég vil þakka öllum, sem hafa gert okkur kleift að setja saman metnaðarfulla dagskrá ráðstefnunnar. Hefur verið ánægjulegt að fylgjast með því, hve allir hafa tekið því vel að miðla hér af þekkingu sinni og reynslu. Er of langt mál fyrir mig að nefna þá tugi manna, skóla og annarra opinberra stofnana, sem hér tala eða láta að sér kveða með öðrum hætti. Öllum eru færðar innilegar þakkir.



 Án hins jákvæða áhuga ykkar allra hefði ekki tekist að ná því markmiði, að hér í Menntaskólanum í Kópavogi yrði á einum og hálfum degi unnt að kynnast því helsta, sem er að gerast á þessu mikilvæga sviði nútímalegs skólastarfs.



Ég vil þakka skólameistara Menntaskólans í Kópavogi fyrir að lána okkur húsnæði skólans og aðstöðu hans sem umgjörð um ráðstefnuna. Einnig færi ég Skýrslutæknifélagi Íslands þakkir fyrir samstarfið. Félagið lætur víða til sín taka við þróun upplýsingatækninnar og er gott fyrir okkur sem störfum að skólamálum að vita af áhuga þess á að styðja við bakið á þróun tækninnar í menntakerfinu. Fyrirtækin Nýherji, Landssími Íslands, Hugvit og Nútíma samskipti hafa veitt okkur verulega aðstoð, sem ljúft er að þakka eins öðrum fyrirtækjum, sem koma að ráðstefnunni með einum eða öðrum hætti.



Að lokum skiptir þó mestu, að ráðstefnan gagnist þeim, sem hana sækja og kynningin hér í dag og á morgun skili sér inn í skólana og þar með þjóðfélagið allt. Í vissu þess að svo muni verða segi ég ráðstefnuna UT 99 setta.