3.11.2013

Niflungahringurinn í París

Flutt á árshátíð Wagner-félagsins 2. nóvember 2013


Hinn 1. ágúst 2009 tók Nicolas Joel  við stöðu óperustjóra í París. Hann hafði 23 ára aðstoðað Patrice Chéreau  árið 1976 við hina frægu uppfærslu á Niflungahringnum í Bayreuth undir stjórn Pierres Boulez. Hann segir að kynni sín af Hringnum hafi fyllt hann ástríðu og hún hafi aldrei horfið. Sjálfur hefur hann fært Hringinn upp í Rínar-óperunni  og Lyon-óperunni en þá var hann aðeins 26 ára.

Nicolas Joel var ekki fyrr orðin óperustjóri í París en hann ákvað að Hringurinn skyldi sýndur í Bastillu-óperunni. Óperuhúsið var opnað árið 1989 og hafði aldrei hýst Hringinn hann hafði í raun ekki verið fluttur í Parísaróperunni í rúm 50 ár árið 2009. Hann hafði hins vegar verið sýndur oftar en einu sinni á þessum 50 árum í Chatelet í París.

Joel valdi Þjóðverjan Günter Krämer (fæddur 1940) til að stjórna uppfærslunni og Svisslendinginn Philippe Jordan (fæddur 1974) sem hljómsveitarstjóra. Jordan kom að Parísaróperunni sem aðalstjórnandi árið 2009 og hefur nú samning þar til 2018. Þá hefur hann verið ráðinn aðalstjórnandi Wiener Symphoniker næstu fimm ár frá á með tónleikaárinu 2014 til 2015.

Rínargullið og Valkyrjan voru frumflutt í búningi þessara manna vorið 2010 og Siegfried og Ragnarök árið 2011.

Markmiðið var að flytja Hringinn í heild á 200 ára afmælisári Richards Wagners og gekk það eftir 18. til 26. júní 2013.

Rínargullið var sýnt 18. júní, Valkyrjan 19. júní, Siegfried 23. júní og Ragnarök 26. júní.

Hinn 23. janúar 2012 fékk Rut, kona mín, bréf frá Parísaróperunni þar sem vakin var athygli á að hinn 1. febrúar yrði hafin kynning á einstökum atburði í óperunni, uppfærslu á Hringnum og yrði jafnframt unnt að kaupa miða á netinu.

Við ákváðum að láta slag standa og með tæplega 18 mánaða fyrirvara keyptum við miða í  þriðja verðflokki á 157.50 evrur, tæpar 26.000 ísl. kr.,  hvern miða í fremstu röð á öðrum svölum.

Höfðum við sömu sessunauta allar sýningarnar og á hvoruga hlið okkar sátu Frakkar. Virtust margir hafa lagt land undir fót eins og við til að taka þátt í þessum sögulega viðburði. Við sáum þó enga aðra Íslendinga í hópi 2.700 áhorfenda.

Við leigðum okkur íbúð í 11. hverfi í um 10 mínútna göngufjarlægð frá óperuhúsinu.  Bjuggum við skammt frá hinum kunna Aligre-markaði, að öðru leyti þekktum við ekki hverfið. Lífið í því kom okkur þægilega á óvart. Eigandi íbúaðarinnar hefði þó mátt sýna henni meiri alúð.

Hvað sem því leið var ekki unnt að kvarta undan alúðinni sem gestum var sýnd í óperunni. Í miðaverðinu voru innifaldar veitingar sem voru bornar fram á hugvitsamlegan hátt í hléum á sýningunum. Þetta voru matarbox ásamt vín- eða vatnsglasi sem biðu á afgreiðsluborðum um allt hið risastóra hús þar sem gengið var úr salnum. Dreifðust óperugestir með boxin sín um forsali hússins og nutu þess sem var í boði hverju sinni en sérstakur „matseðill“ var fyrir hverja sýningu.

Hér hef ég lýst umgjörðinni um okkur áhorfendur. Hún var ekki síður glæsileg um flytjendur á sviðinu. Jürgen Bäckmann gerði leiktjöldin og Falk Bauer búninga, hvort tveggja var nútímalegt en þó sígilt í einfaldleika sínum.

Í Rínargullinu voru Niflungarnir látnir glíma við gullinn hnött og var hann eins og leiðarhnoð í öllu verkinu.

Hann birtist stundum sem epli Iðunnar. Snorri segir í Skáldskaparmálum frá stuldi gulleplanna og að goðin hafi umsvifalaust tekið að eldast ef þau fengju ekki af bíta af eplum Iðunnar – án eplanna urðu þau eins og dauðlegir menn.

Undir lokin var hnötturinn með landakorti. Hann var örlagatáknið sem hvarf í Ragnarökum.  

Hópatriði voru einstaklega glæsileg en sum skrýtin. Til dæmis voru valkyrjurnar kynntar til leiks með því að láta þær klæðast eins og hjúkrunarfræðinga eða sjúkraliða og draga nakta karlmenn á lökum inn á sviðið og blása í þá lífi – sýndi þetta verkefni þeirra í Valhöll. Okkur var sagt að í upphaflegri gerð hefðu hinir látnu verið á líkborðum á hjólum en nektin farið fyrir brjóstið á áhorfendum og þess vegna voru þeir lagðir á lök.  

Í Siegfried gengu negrar með skotfæri í kössum inn á sviðið fyrir framan helli Fáfnis og virtust gæta hans, ef til vill átti þetta að undirstrika óttaleysi Siegfrieds þegar hann réðst til atlögu við drekann.

Búningarnir féllu vel að sýningunni en þó ekki að Brynhildi í Valkyrjunni þegar hún gekk um í hálf-hallærislegri hvítri buxnadragt sem átti að sýna hana í stöðu yfirmanns á sjúkrahúsi.

Eftirminnleg er senan þegar Frikka ávítar Óðin í öðrum þætti Valkyrjunnar og hótar honum skilnaði bindi hann ekki enda á sifjaspell Sieglinde og Sigmundar.  Gekk Frikka virðuleg í glæsilegum rauðum síðkjól umhverfis risastórt borð og sagði Óðni til syndanna.

Ég ætla mér ekki þá dul að leggja dóm á söngvarana. Það vakti hins vegar athygli mína að aðeins einn söngvari í stóru hlutverki var franskur, Sophie Koch í hlutverki Frikku.

Egils Silins frá Lettlandi var Óðinn, Linda Watson frá Bandaríkjunum var Brynhildur, Stuart Skelton frá Ástralíu Siegfried, Peter Sidhom frá Egyptalandi Alberich, Samuel Youn frá Suður-Kóreu Donner, Günther Groissböck frá Austurríki Hunding, Edith Haller frá Ítalíu Sieglinde og Qiu Lin Zhang frá Kína Erda.

Á öllum sýningum var flytjendum innilega fagnað með langvinnu lófataki. Eftir hvert hlé stóð hljómsveitin upp þegar stjórnandinn gekk inn í gryfjuna og hlaut lof í lófa. Í lok sýninga kom öll hljómsveitin upp á svið og ætlaði þakið þá að rifna af óperuhúsinu. Hafði ég ekki áður tekið þátt í að hylla óperuhljómsveit á sviði að sýningu lokinni en hljóðfæraleikararnir og stjórnandi þeirra áttu þakklætið fyllilega skilið.

Í minningunni hvílir stórbrotinn glæsileiki yfir þessum sýningum í Bastillu-óperunni og dvölinni í París þessa daga þótt Frökkum þætti sumarið koma seint og of kalt í veðri.

Það eitt að vera kvöld eftir kvöld í hinu mikla óperuhúsi við Bastillu-torgið og horfa þaðan yfir stórborgina í átt að Eiffel-turninum í ljósaskiptunum við sumarsólhvörf gaf Parísarferðinni sérstakt gildi.