26.2.2010

Ármann Snævarr – minning.

 

 

Ármann Snævarr sýndi mér strax vinsemd, þegar við við kynntumst í lagadeild Háskóla Íslands. Á þeim tíma var samband prófessora og nemenda annað og almennt formlegra en síðar hefur orðið, auðveldaði það öll samskipti okkar, að hann bauð mér hátíðlega að verða dús. Honum var ljúft að minnast þess, að faðir minn hafði verið meðal prófessora hans í lagadeildinni.

Ármann var rektor Háskóla Íslands meginhluta námstíma míns í skólanum. Sem varaformaður og formaður stúdentaráðs átti ég mikil og góð samskipti við rektor og kynntist því frá fyrstu hendi, hve annt Ármanni var um hag stúdenta. Hann lagði þar mikilvægan skerf af mörkum, sem reynst hefur námsmönnum við skólann heilladrjúgur í 42 ár og orðið fyrirmynd í öðrum skólum. Vísa ég þar til Félagsstofnunar stúdenta.

Fyrir daga stofnunarinnar þvældust framkvæmda- og hagsmunamál í þágu stúdenta árum eða jafnvel áratugum saman á milli stúdentaráðs, háskólaráðs og stjórnarvalda, án þess að endanlegar ákvarðanir væru teknar. Ármann Snævarr beitti sér á vettvangi háskólaráðs fyrir samstarfi við stúdentaráð um gerð tillagna að lagafrumvarpi, sem var síðan fullmótað í samvinnu við menntamálaráðuneytið og flutt af Gylfa Þ. Gíslasyni, menntamálaráðherra. Gat samvinnan af sér lögin um Félagsstofnun stúdenta á árinu 1968.

Fyrirmyndin var sótt til Studentsamskipnaden við háskólann í Ósló. Sem lögfræðikandídat hélt Ármann til Noregs á mót laganema og ungra lögfræðinga sumarið 1947. Hafþór Guðmundsson lögfræðikandídat var auk þess í förinni og laganemarnir Þorvaldur Garðar Kristjánsson, Geir Hallgrímsson og Guðmundur Ásmundsson, sem ritaði ferðasögu í tímaritið Úlfljót. Þar segir frá  frækilegri framgöngu Ármanns í knattspyrnu, hindrunarhlaupi og í boccia-liði með Þorvaldi Garðari.

Í norræna laganemastarfinu tókust kynni Íslendinga við Norðmanninn Tönnes Andenæs, sem síðan lagði mikla rækt við Ísland, þar til hann fórst í járnbrautarslysi árið 1975. Tönnes tók að sér, áður en hann lauk lagaprófi, að stofna Universitetsforlaget við Studentsamskipnaden í Ósló, sem annar Íslandsvinur, Kristian Ottosen, stjórnaði. Vegna kynna okkar Ármanns við fjölskylduvin minn Tönnes fengum við þá Tönnes og Kristian til að koma hingað til lands og kynna Studentsamskipnaden og efla þannig stuðning við hugmyndina um Félagsstofnun stúdenta.

Án einlægs áhuga Ármanns og eindregins stuðnings hefðu lög ekki verið sett um Félagsstofnun stúdenta. Að því unnu stúdentar á Íslandi í náinni og góðri samvinnu við rektor skóla síns á sama tíma og spenna myndaðist í háskólum víða í Evrópu og Bandaríkjunum í anda stúdentaóeirðanna í París, sem síðan hafa verið kennd við 68.

Á hinstu kveðjustundu Ármanns er mér þakklæti og virðing efst í huga. Þakklæti fyrir vinarhug hans í áranna rás og virðing fyrir leiðsögn hans í laganámi og framsýni hans í rektorsstörfum. Með Ármanni er kvaddur merkur fræðimaður og leiðtogi á vettvangi Háskóla Íslands.

Við Rut vottum Valborgu, ekkju Ármanns, og ástvinum öllum innilega samúð.

Blessuð sé minning Ármanns Snævars.

Björn Bjarnason