11.5.2009

Mánudagur, 11. 05. 09.

Fréttir af því, að ríkisstjórnin ætli að hittast á Akureyri á morgun og halda síðan blaðamannafund og ráðherrar hafi í dag hitt forstöðumenn ríkisstofnana, eru ótrúlega innan tómar og lítils virði. Þær eru hins vegar í samræmi við efnisrýrt viðtal við Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í Kastljósi kvöldsins.

Þegar ég heyri Jóhönnu Sigurðardóttur tala um greiðsluaðlögun og framkvæmd hennar, dettur mér í hug, að hún átti sig ekki á efni málsins. Umræður um, að finna eigi sérleiðir til að innkalla kröfur vegna greiðsluaðlögunar, benda til sambærilegrar vanþekkingar hjá fleirum. Spurning er, hvernig dómskerfið bregst við auknu álagi vegna greiðsluaðlögunar eða bankahrunsins almennt. Ég vék að því síðasta haust, að vafalaust þyrfti að auka umfang dómskerfisins vegna bankahrunsins.

Einfalda leiðin til að taka á málum skuldara er, að ríkisstjórn eða alþingi setji ríkisbönkum og Íbúðarlánasjóði reglur um innheimtu og afskriftir. Ofurtrú Jóhönnu Sigurðardóttur á greiðsluaðlögun hefur beint úrræðum í þágu skuldara inn á of flóknar brautir.

Lýðræði og ábyrgð er sagt leiðarljós ríkisstjórnarinnar við úrlausn vanda vegna bankahrunsins. Að fela embættimanni í stöðu viðskiptaráðherra stjórn efnahagsmála er í hróplegri andstöðu við lýðræði og ábyrgð. Ráðherra, sem ekki er þingmaður, verður ekki kallaður til ábyrgðar af kjósendum. Björgvin G. Sigurðsson sagði af sér embætti viðskiptaráðherra, af því að hann taldi sig ekki ná endurkjöri á þing, sæti hann í embættinu - aðferðin tókst hjá honum og hann er meira að segja orðinn þingflokksformaður Samfylkingarinnar.