28.5.2009

Fimmtudagur, 28. 05. 09.

Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fluttu sameiginlega tillögu um Evrópumál á alþingi í dag. Ég skrifaði um hana pistil á nýja vefsíðu efrettir.is og má lesa hann hér.

Aðalfyrirsögn á forsíðu The Daily Mail í dag er French D-day surrender. Með þessari uppgjöf Frakka vegna D-dagsins, það er innrásar bandamanna í Normandí fyrir 65 árum, er vísað til þess, að frönsk stjórnvöld hafi gefist upp og sagt, að Elísabet Bretadrottning sé velkomin til minningarathafnar vegna D-dagsins í Normandí í næstu viku. Telur blaðið, að Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, hafi séð sitt óvænna og tekið u-beygju í afstöðu til drottningarinnar vegna þrýstings frá The Daily Mail auk þess sem blaðið þakkar sér, að Gordon Brown hafi ákveðið, að Bretar skyldu almennt sýna sig í Normandí á þessum degi, en Frökkum hafi verið mest í mun, að þeir gætu staðið þar hlið við hlið Sarkozy og Barack Obama, Bandaríkjaforseti,

Stephen Glover, dálkahöfundur The Daily Mail, vandar Sarkozy ekki kveðjurnar vegna þeirrar óvirðingar, sem Glover telur hann hafa sýnt drottningunni. Kallar hann Sarkozy smámenni með mikilmennskubrjálæði og fer auk þess háðuglegum orðum um frönsku forsetafrúna. Þá gefur blaðið til kynna að fjölskyldur forsetahjónanna í Ungverjalandi og Íalíu hafi verið hallar undir nasista á stríðsárunu.

Þjóðrembutónninn í skrifum blaðsins er eð nokkrum ólíkindum, ekki aðeins um þetta mál heldur fleiri.  Þannig segir blaðið fagnaðarefni, að Þjóðverjar segist ætla að vera heima hjá sér í sumarfríinu. Þá þurfi Bretar ekki að takast á við frekju þeirra á sólarströndum.  Bresk fjölskylda hafi fengið 4000 pund í skaðabætur, eftir að hafa stefnt ferðaskrifstofu fyrir dómara, þar sem aðeins hafi verið barnadagskrá á þýsku á grískri eyju, þar sem fjölskyldan var í fríi.