Þriðjudagur 12. 05. 09.
Í dag birti fjármálaráðuneytið skýrslu um þjóðarbúskapinn, sem sýnir, að skuldir ríkissjóðs eru svo miklar, að ekki sé þess að vænta, að Ísland geti tekið upp evru í samræmi við skilyrði Evrópusambandsins fyrr en árið 2039.
Ég hef hvað eftir annað vakið máls á því, að ekki eigi að útiloka einhliða upptöku evru eða annars gjaldmiðils. Byggist þessi skoðun á mati á stofnsáttmála Evrópusambandsins og EES-samningnum. Hagfræðingar hafa lagst á sömu sveif en einnig á móti. Eindregnir ESB-aðildarsinnar mega ekki heyra á þetta minnst og kalla á Percy Westerlund, sendiherra, og aðra stórsnillinga ESB sér til bjargar.
Nýlega birtist grein þriggja MBA nemenda í Háskólanum í Reykjavík, sem sögðust skrifa fyrir hönd 55 MBA nema við skólann. Útiloka þeir ekki einhliða upptöku evru. Einn þessara nemenda, Jan Triebel, læknir, ritar nýja grein um málið í Morgunblaðið í dag og lýkur henni með þessum orðum:
„Ekki er til nein töfralausn, hið gamla virði íslenskrar krónu verður ekki endurheimt í bráð. Aðild að ESB væri alls ekki útilokuð með því að taka upp evru nú þegar. Það er kreppa út um allan heim og verið að auka peningamagn innan evrusvæðisins, sem mun leiða til verðbólgu á næstu árum. Einnig eru ýmis vandamál innan ESB, sem ógna stöðugleika kerfisins. Fullkomið öryggi er ekki hægt að fá. Nauðsynlegt er að skoða möguleikana vel með það í huga að tíminn er naumur, en samt þarf að taka ákvarðanir með langtímamarkmiðum. Til þess þarf kjark og ábyrgðartilfinningu. Það ber að forðast að draga kraft úr fólkinu með því að bjóða fram skattahækkun og launalækkun. Ég skora á nýkjörna ríkisstjórn Íslands að taka stefnu að trúverðugri leið að upptöku evru í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og í sátt við ESB. Ísland hefur ekki efni á því að pólitísk sértrú eða flokks- og valdahagsmunir ráði ferðinni. Ísland hefur alla möguleika til þess að snúa dæminu við og byggja aftur upp blómstrandi efnahags- og velferðakerfi með hvetjandi en ekki letjandi aðgerðum fyrir almenning. Höldum okkur við efnislega umræðu og tökum ákvörðun með hag íslenskrar þjóðar að leiðarljósi.“
Ég fagna þessari grein og tel hana til marks um, að gefi menn sér tíma til að fara yfir stöðu íslenskra efnahagsmála, sjái þeir, að þetta sé leið, sem skoða á til þrautar, áður en stofnað er til frekari ófriðar vegna deilna um aðild að ESB.