31.5.2009

Sunnudagur, 31. 05. 09.

Fór í tæplega þriggja tíma göngu um miðborg London og fræddist um atburði þar í síðari heimsstyrjöldinni. Við lögðum af stað við Embankment-brautarstöðina og kvöddum leiðsögukonuna við Cabinet War Rooms - vegalengdin er ekki löng en farið var um Charing Cross, Trafalgar Square, Picadilly Circus, Jermyn Street og St. James Park. Margt fróðlegt bar fyrir augu og var sagt.

Dalai Lama kemur til Íslands í dag og ég les í vefmiðlum, að hvorki Jóhanna Sigurðardóttir né aðrir ráðherrar ætli að hitta hann. Hvað veldur? Ótti við kínverska sendiráðið?

Um árið hitti ég sem menntamálaráðherra sendimenn frá Tævan. Þetta olli svo miklu uppnámi hjá þáverandi sendiherra Kína, að hann stóð og flutti reiðilestur, ef hann ekki beinlínis öskraði af reiði, í anddyri menntamálaráðuneytisins. Ég leit sendiherrann aldrei sömu augum eftir þetta. Mér finnst, að kínverskir stjórnarerindrekar eigi frekar að hafa áhyggjur af framgöngu sinni, þegar ríkisstjórnir ákveða að taka á móti gestum á eigin forsendum, en ráðherrar, sem sýna sjálfsagða gestrisni.