17.5.2009

Sunnudagur, 17. 05. 09.

Í dag skrifaði ég pistil hér á síðuna til að átta mig á því, sem fyrir ríkisstjórninni vakir í Evrópumálum. Þar færi ég rök að því, að bæði vinstri-grænir og Samfylking hafi leynt kjósendur áformum sínum fyrir kosningar. Þá sé hraða málsins að rekja til krafna frá Brussel, ef Svíar eigi að koma að því að hafa forystu um að koma aðildarviðræðum við Ísland í farveg.

Ég skil ekki, hvernig Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, ætlar að halda á þessu máli, ef hann lætur eins og einhver þjóð hafi óskað eftir viðræðum um aðild að Evrópusambandinu, án þess að ríkisstjórn landsins hafi ákveðið að sækja um aðild.

Þegar sagt er, að Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs, hafi sótt um aðild í minnihlutastjórn, án þess að allur flokkur hennar styddi umsóknina, er í raun sagt, að ríkisstjórn Noregs hafi staðið á bakvið umsóknina. Látið er í veðri vaka, að staðan sé hin sama hér en þó bætt við, að ríkisstjórnin hafi ekki ákveðið að sækja um aðild!

Hin illa ígrundaða umsókn Noregs átti ríkan þátt í því, að þjóðin felldi aðildarsamning í atkvæðagreiðslu. Finnst Samfylkingunni þetta til eftirbreytni? Kosið verður til norska stórþingsins í september. Enginn væntir breytinga á stefnu Noregs gagnvart ESB.