3.5.2009

Sunnudagur, 03. 05. 09.

Ég skrifaði í dag pistil á síðuna mína um nýja varðskipið Þór og hve ómaklega mér finnst DV og Egill Helgason fjalla um þau mál, sem ég nefni til sögunnar.

Þegar ég horfði á fréttaauka sjónvarpsins í kvöld, þar sem tekið var til við að ræða um spönsku veikina og hörmungar af hennar völdum í sömu andrá og rætt var um flensuna, sem er að breiðast um heiminn frá Mexíkó, velti ég fyrir mér, hvort þessi skírskotun til spænsku veikinnar fyrir 91 ári eigi í raun nokkurn rétt á sér, hvort ekki sé verið að hræða fólk um of með henni miðað við allar framfarir, sem orðið hafa í læknisfræði á þeim tíma, sem liðinn er frá 1918.

Umræður um hættu af fuglaflensunni leiddu til margvíslegra aðgerða hér á landi og annars staðar, sem nýtast vel, þegar hugað er að viðbúnaði vegna þess faraldurs, sem kann að breiðast af þunga um heiminn núna. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknir hafa samið viðbragðsáætlanir og lagt hefur verið fram fé til að auðvelda framkvæmd þeirra.