3.5.2009

Þór af stokkunum - ómaklegur málflutningur.

 

Nýju varðskipi var hleypt af stokkunum í skipasmíðastöð ASMAR í hafnarborginni Talcahuano í suðurhluta Chile miðvikudaginn 29. apríl. Þórunn J. Hafstein, starfandi ráðuneytisstjóri dóms- og kirkjumálaráðuneytisins gaf varðskipinu nafn og mælti þessi orð:

„Guð í hjarta, Guð í stafni, gefur fararheill.
Ég nefni þig Þór.
Gifta og styrkur fylgi nafni þinu. Drottinn Guð geym það nafn í huga þér.
Gæt skips og áhafnar fyrir veðri og áföllum. Blessa gæslu þeirra landi og lýð til heilla. Drottinn verði með þér alla tíð.“

Á vefsíðu Landhelgisgæslu Íslands er sagt frá athöfninni og þess getið, að Þór sé fyrsta skipið sinnar tegundar, sem sé smíðað hjá ASMAR og hið fullkomnasta, sem þar hefur verið smíðað að getu og tækniútfærslum. Um borð sé til dæmis sérstakur búnaður til mengunarvarna, fjölgeislamælir og DPS kerfi (Dynamic Position /Joystick System) til að tryggja nákvæmni við stjórn skipsins við erfiðar aðstæður. Þannig  geti skipið sjálft haldið kyrru fyrir í ákveðinni stöðu á sama stað. Þetta auk t.d. hæfni skipsins til að nálgast strandað skip og koma dráttarbúnaði milli skipanna. Skipið sé einnig búið öflugum eftirlitsbúnaði, innrauðum og nætur myndavélum og allur eftirlitsbúnaður sameinist í sérstakri stjórnstöð inni í miðri brúnni. Nota megi skipið sem færanlega stjórnstöð í neyðaraðgerðum og í tengslum við björgunarlið við samræmingarstöð í Skógarhlíð, þótt allt venjulegt fjarskiptasamband liggi niðri. Hægt er að taka stórtækan björgunarbúnað um borð sem og  mikinn fjölda manna, sem getur skipt sköpum við björgunaraðgerðir.

Á vefsíðu landhelgisgæslunnar segir einnig, að smíði hins fjölhæfa og fjölnota varðskips, sem nefnt er hátækniskip, hafi vakið gríðarlega athygli og fylgist strandgæslur víða um heim með smíðinni. Dráttargeta skipsins sé 120 tonn og ganghraði 19,5 sjómílur. Skipið sé búið tveimur 4.500 kw aðalvélum, það sé 4.250 brúttótonn, 93,65 metrar að lengd og 16 metra breitt. Til samanburðar megi nefna að varðskipið Týr sé 71 metra langt og 10 metra breitt með 56 tonna dráttargetu. Nýja varðskipið búi yfir öllum eiginleikum dráttarskips, til dæmis sé snúningspunktur dráttarvírs er fyrir framan stýri og skrúfur og því auðvelt að breyta stefnu, þótt verið sé að draga miklu stærra og þyngra skip. Skipið sé búið öflugum slökkvibúnaði og geti gefið þyrlum á flugi eldsneyti. Skipið sé hannað af Rolls Royce Marine í Noregi og á grunni norska varðskipsins Harstad sem norska strandgæslan hafi rekið frá árinu 2005.

Hinn 20. desember 2006 rituðum  við Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, undir skipasmíðasamning við ASMAR við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu. Setti ég þá hér á síðuna

Sögulegur atburður var í Þjóðmenningarhúsinu í dag kl. 14.00, þegar ritað var undir smíðasamning um nýtt varðskip við ASMAR skipasmíðastöðina í Chile. Varðskip var síðast smíðað fyrir Íslendinga árið 1975, og var það Týr. Nýja skipið verður mun stærra en Ægir og Týr, ef allt gengur samkvæmt umsaminni áætlun á það verða tilbúið um mitt ár 2009. Ég flutti ávarp við athöfnina.“

Tafir verða á afhendingu skipsins miðað við það, sem ætlað var á þessum tíma og er það væntanlegt hingað snemma árs 2010. Tafirnar eru vegna þess, að smíðin var flóknari en ASMAR ætlaði. Samningar þeir, sem gerðir voru, eru á hinn bóginn með mikill haldfestu fyrir landhelgisgæsluna gagnvart töfum á smíðatíma. Raunar hefur efni þeirra og framkvæmd ekki síður vakið alþjóðaathygli en gerð skipsins sjálfs.

Eins og ég sagði í ávarpi mínu við gerð smíðasamningsins var hann þriðja atlagan að smíði nýs varðskips, frá því að ég settisti í ríkisstjórn árið 1995. Að mínu áliti hefur það ráðið úrslitum, að ákveðið var að fara þá leið að ætla sér ekki að finna upp hjólið heldur byggja á hinni norsku fyrirmynd frá Harstad-skipunum.

Með komu hins nýja varðskips og nýrrar eftirlitsflugvélar landhelgisgæslunnar tekur starfsemi gæslunnar og geta hennar á N-Atlantshafi stökkbreytingu. Mikilvægt er, að fundin verði hagkvæmasta leið til að nýta hin nýju, fullkomnu og stórvirku tæki sem best.

 

 Ómaklegur málflutningur.

 

Á dögunum birti dv.is þá ásökun í minn garð, að ég hefði sem dómsmálaráðherra beitt mér fyrir því, að fíkniefnabrotamaður fengi gjafsókn.

Á dv.is sagði 30. apríl 2009:

„Eitt af síðustu afreksverkum Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra, var að veita Rúnari Þór Róbertssyni, meintum höfuðpaur í nýja skútumálinu, gjafsókn vegna umfjöllunar DV um annað smyglmál þar sem Rúnar slapp undan réttvísinni.

Nú er gjafsóknarþegi Björns í varðhaldi grunaður um að vera höfuðpaur. Það er auðvitað fráleitt að halda að Björn hafi sýnt þetta örlæti vegna óvildar sinnar í garð DV.“

Þegar betur er að gáð, kemur í ljós, að lögum samkvæmt á maðurinn rétt á gjafsókn, þegar hann stefnir valdstjórninni fyrir að hafa sig ólöglega í varðhaldi, eins og þarna var gert. Fullyrðingar um þátt minn að þessu máli eiga ekki við nein rök að styðjast.

Egill Helgason, þáttastjórnandi Ríkisútvarpsins, hefur látið að því liggja, að ég hafi ráðið óhæfan mann sem sérstakan saksóknara vegna bankahrunsins. Má draga þá ályktun af þessum orðum hins óhlutdræga álitsgjafa RÚV, að ég hafi haft af því einhverja hagsmuni, að réttvísin næði ekki fram að ganga gagnvart þeim, sem kunna að hafa gerst brotlegir við lög vegna bankahrunsins.

Egill Helgason sagði á vefsíðu sinni 29. apríl:

„Það sást líka á því hvernig Sjálfstæðisflokkur og Samfylking stofnuðu embætti sérstaks saksóknara að í flokkunum ríkti algjört áhugaleysi á að rannsaka málin almennilega.

Embættið var nánast andvana fætt, enginn sótti um það. Svo var fundinn sýslumaður á Akranesi og hann fenginn til að sækja um. Þetta var ekki heppileg atburðarás – og embættið líður ennþá fyrir það.

-----

Og þetta með hann Ólaf saksóknara hefur ekkert með það að gera að hann sé ofan af Skaga.

Hann hefur einfaldlega ekki þá þekkingu og reynslu sem þarf í þetta starf.“

 

Þegar fjölmiðlamenn halda á málum á þennan veg, er spurning, hvað sé til varnar eða hvort menn, sem gegna eða hafa gegnt opinberum störfum, þurfi í raun að láta slíkan áburð yfir sig ganga, án þess að hreyfa legg eða lið. Í raun er með öllu er ástæðulaust, að þeir, sem misnota  málfrelsið á þann veg, að bera aðra menn röngum sökum, komist upp með það, jafnvel þótt stjórnmálamenn eigi í hlut, svo að ekki sé talað um embættismenn.

Í málum sem þessum eiga þeir, sem farið hafa yfir strikið í málflutningi sínum, ávallt þann kost að draga ummæli sín til baka og biðjast afsökunar á þeim.

Málflutningur þeirra DV-manna um gjafsóknarrétt þess, sem þar er um að ræða, er svo fráleitur, að furðu sætir, að hann skuli á borð borin. Skýringin er hins vegar einföld, því að viðkomandi einstaklingur á í útistöðum við Reyni Traustason, ritstjóra DV.

Skýring á ummælum Egils Helgasonar er einnig nærtæk. Þau eiga rætur að rekja til þess, að hann beitti sér fyrir því ásamt öðrum manni að fá Evu Joly, franskan saksóknara, hingað til lands og hún var síðan ráðin ráðgjafi hins sérstaka saksóknara í fáeina daga í mánuði fyrir hærri laun en nema mánaðarlaunum hins sérstaka saksóknara, auk þess sem samstarfsmaður Egils um að kalla Joly á vettvang hefur fengið launaðan samning við ríkið sem sérstakur aðstoðarmaður hennar við rannsókn málsins, þótt hann sé menntaður arkitekt, ef rétt er skilið. Joly hefur sætt gagnrýni íslenskra lögmanna fyrir ýmis ummæli, sem hún hefur látið falla um sekt manna vegna bankahrunsins og hafa þeir talið þau geta spillt fyrir málarekstri á vegum hins sérstaka saksóknara.

Ég veit ekki hvaðan Egill Helgason hefur þá vitneskju, að Ólafur Þór Hauksson sé óhæfur til að gegna starfi sérstaks saksóknara. Af skrifum Egils hefur mátt draga þá ályktun, að það sé vegna þess að Ólafur Þór hefur starfað sem sýslumaður á Akranesi.  Nú segir Egill, að svo sé ekki, Ólafur þór hafi hvorki þekkingu né reynslu til að gegna starfinu. Spyrja má: Hvernig rökstyður Egill þessa dæmalausu fullyrðingu? Hvaðan hefur Egill þekkingu eða reynslu til að fullyrða þetta?

Staðreynd er, að Ólafur Þór fullnægir öllum kröfum íslenskra laga til að gegna þessu erfiða embætti og ég tel, að hann hafi sýnt bæði hugrekki og þegnskap með því að sækja um embættið í ljósi þess, sem hann ætti í vændum, meðal annars frá álitsgjöfum á borð við Egil Helgason, þótt engum hefði líklega dottið í hug að telja Ólaf Þór óhæfan til að gegna starfi sínu nema Agli Helgasyni.

Af því sem Egill Helgason leyfir sér að segja um hinn sérstaka saksóknara og hlut minn að því máli, mætti ætla að ég hefði þar setið einn að ráðum. Staðreynd er, að við meðferð frumvarpsins um embættið, sem tafðist á alþingi, þar sem Samfylkingunni þótti ekki liggja á að afgreiða það, settu nefndarmenn í allsherjarnefnd þingsins fram ósk um að vera hafðir með í ráðum við ráðningu þess, sem fengi embættið. Hét ég því og við það var að sjálfsögðu staðið með sérstökum fundi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu með fulltrúum allra flokka í allsherjarnefnd þingsins og lýstu þeir sig samþykka ráðningu Ólafs Þórs og dró enginn í efa hæfni hans til að sinna embættinu.

Sé málum svo komið, að Agli Helgasyni þyki nauðsynlegt að gera lítið úr Ólafi Þór á minn kostnað til að upphefja eigin hlut við að fá Evu Joly til landsins og stuðla að því, að hún yrði hér sérlegur ráðgjafi Ólafs Þórs er það einfallega lúalegt  af hálfu Egils.

Mönnum hefur orðið tíðrætt um siðareglur stjórnmálamanna í átökum liðinna mánaða. Því hefur verið lofað að þær yrðu settar. Blaðamannafélag Íslands hefur á hinn bóginn sett siðareglur um þá, sem starfa á fjölmiðlum og innan vébanda félagsins starfar sérstök siðanefnd. Vissulega er unnt að skjóta málum til hennar, en hitt sýnist vera árangursríkara að leita beint til dómstóla, enda kvartar Blaðamannafélag Íslands nú undan dómum, sem falla um félagsmennina.