20.12.2006

Nýtt varðskip, smíðasamningur við ASMAR.

Þjóðmennningarhúsi, 20. desember 2006.

 

 

Þegar ég hugsa til umræðna um nýtt varðskip í þeim ríkisstjórnum, þar sem ég hef setið síðan 1995, á það við í dag, að allt sé, þegar þrennt er.

 

Þetta er þriðja atrennan, sem gerð er að því að hefja smíði nýs varðskips á þessum tíma. Að þessu sinni komum við saman til að stíga sjálft lokaskrefið, áður en smíðin sjálf hefst – það er að skrifa undir smíðasamning að loknu forvali, útboði og skýringarviðræðum. Afhending hins nýja varðskips er áætluð 30 mánuðum eftir undirritun okkar hér í dag eða um mitt ár 2009.

 

Í stefnuræðu Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, við upphaf þessa kjörtímabils sagði, að nauðsynlegt væri að laga starf Landhelgisgæslu Íslands að nýjum kröfum, ráðast í smíði nýs varðskips og gera áætlun um endurnýjun flugflota hennar.

 

Allt hefur þetta gengið eftir. Landhelgisgæsla Íslands starfar nú samkvæmt nýjum lögum í nýju húsnæði og er virkari aðili en áður að vöktun skipaferða við landið. Varðskipin Ægir og Týr, sem voru smíðuð 1968 og 1975, hafa verið endurnýjuð. Þyrlusveit gæslunnar er að taka stakkaskiptum og verið er að fara yfir tilboð í nýja flugvél landhelgisgæslunnar.

 

Í október 1998 samþykkti ríkisstjórnin, að nýtt varðskip skyldi smíðað hér á landi. Átti að tryggja þessi áform með sérstökum lögum, en þau stóðust ekki kröfur evrópska efnahagssvæðisins.

 

Í mars 2000 var dómsmálaráðherra afhent smíðalýsing að nýju 105 metra, 3000 tonna varðskipi og var talið, að það tæki þrjú til fimm ár að smíða skipið, þar af eitt ár að vinna smíðateikningar.

 

Áform um þetta skip voru enn á vinnslustigi, þegar ríkisstjórnin samþykkti tillögu frá mér í mars 2005 um, að horfið yrði frá hugmyndum um sérhannað varðskip.

 

 

Þegar ég kynnti þessa tillögu sagði ég þær kröfur helstar til nýs varðskips að mati landhelgisgæslunnar, að það gæti sinnt eftirliti í efnahagslögsögu Íslands, mengunarvörnum, afgreitt eldsneyti til björgunarþyrla á flugi og brugðist við í þágu almannavarna hvar sem væri á landinu. Skipið yrði einnig að geta stutt við viðbrögð og varnir gegn hryðjuverkaógn, nýst til samvinnu við sérsveit lögreglunnar og tollgæslu til varnar smygli á fólki og fíkniefnum og sinnt hverskonar björgunarstörfum. Í björgunarhlutverkinu fælist að draga skip og báta og við framkvæmd þess þyrfti að miða við, að umferð stórra flutningaskipa stórykist um efnahagslögsöguna og við strendur landsins á næstu árum.

 

Enn var smíði varðskips rædd í ríkisstjórn í nóvember 2005 og þá var samþykkt tillaga mín um að farið yrði í forval á skipasmíðastöðvum, sem uppfylltu ákveðin skilyrði með tilliti til rekstrarstöðu og reynslu af sambærilegum verkefnum. Síðan yrðu valdar 5 til 10 stöðvar, sem gætu boðið í smíði á nýju og mun stærra og öflugra varðskipi en við höfum átt til þessa.

 

Tilboð í nýtt varðskip voru opnuð 21. september 2006. Eftir mat og yfirferð Landhelgisgæslu Íslands og Ríkiskaupa á tilboðunum var gengið til skýringaviðræðna við ASMAR skipasmíðastöðina í Chile. Viðræðurnar leiddu til samkomulags og hinn 1. desember síðastliðinn veitti ríkisstjórnin Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra og mér heimild til að rita undir þann samning, sem er hér á borði okkar í dag.

 

Hönnun skipsins er unnin af Rolls Royce í Noregi.

 

Ég vil þakka öllum, sem hafa unnið að gerð útboðs, yfirferð yfir tilboð og frágangi þessa samnings, leyfi ég mér þar að nefna Carsten Fauner skipaverkfræðing, sem var íslensku sérfræðingnefndinni frá Ríkiskaupum og ráðuneytum til ráðgjafar.

Tíminn hefur verið nýttur vel og árangurinn er öllum fagnaðarefni, sem vilja veg Landhelgisgæslu Íslands sem bestan og mestan við mikilvæg störf hennar.

 

Gildi þessara starfa er hafið yfir allan vafa. Í því sambandi vil ég þakka vaska framgöngu starfsmanna landhelgisgæslu, björgunarsveita og lögreglu sunnan við Sandgerði í gær. Ég þakka einnig áhöfn danska gæsluskipsins Triton um leið og ég votta samúð vegna mannskaðans. Hann minnir okkur á hættuna, þegar hugrakkir menn leggja líf sitt að veði til bjargar öðrum.

 

Með vaxandi umferð risaskipa með gas og olíu á siglingaleiðum við Ísland og með sífellt fleiri heimsóknum skemmtiferðaskipa vex krafa um hvers kyns öryggisráðstafanir á hafinu. Líklegt er, að ekki líði langur tími, þar til talið verði nauðsynlegt að ráðast í smíði annars sambærilegs varðskips.

 

Um þessar mundir beinist athygli mjög að viðræðum við nágrannaþjóðir um aukið samstarf í öryggismálum. Af hálfu okkar Íslendinga gegna stofnanir á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, landhelgisgæsla og lögregla, lykilhlutverki við alla þróun slíks samstarfs.

 

Hvarvetna þar sem ríkisstjórnir huga að ráðstöfunum til að auka öryggi borgara sinna er lögð áhersla á að efla löggæslustofnanir. Þótt hernaðarleg gæsla í lofti, á sjó og landi sé mikilvæg, er hættunni, sem steðjar að þjóðum í okkar heimshluta um þessar mundir, best mætt með öflugri löggæslu, greiningarvinnu og áhættumati.

 

Góðir áheyrendur!

 

Ég fagna þeim áfanga, sem náð er hér í dag. Að mínu mati getur íslenska þjóðin ekki fært Landhelgisgæslu Íslands betri gjöf á 80 ára afmæli hennar en að ráðist sé í smíði á öflugu varðskipi.

 

ASMAR skipasmíðastöðin hefur starfað í 110 ár og tekist á við mörg flókin og vandasöm verkefni. Þar hafa verið smíðuð fjögur skip fyrir Íslendinga og enn treystum við því, að starfsmenn stöðvarinnar vinni gott verk og færi okkur í hendur fullkomið skip á umsömdum tíma.

 

Er mér sérstakt fagnaðarefni, að aðmíráll Carlos Fanta de La Vega forstjóri hjá ASMAR skuli vera hér með okkur í dag, en ef ég veit rétt, eru aðeins fáeinir dagar síðan hann tók við forstjórastöðu sinni. Koma hans og annarra fulltrúa ASMAR hingað til lands staðfestir góðan hug fyrirtækisins til þessa mikilvæga verkefnis.