29.5.2009

Föstudagur, 29. 05. 09.

Ólafur Arnarson sendi nýlega frá sér bókina Sofandi að feigðarósi, þar sem hann ritar um bankahrunið frá sjónarhorni þeirra, sem telja Davíð Oddsson bera höfuðábyrgð á því. Í pistli á pressan.is 29. maí gagnrýnir Ólafur Gylfa Magnússon, viðskiptaráðherra, fyrir ummæli ráðherrans um íslenska bankastjóra í samtali við The Daily Telegraph. Í pistli sínum segir Ólafur:

„Ekkert hefur komið fram, sem bendir til þess að stjórnendur íslensku bankanna hafi gerst sekir um viðlíka sakir og stjórnendur Enron voru dæmdir fyrir.

Það er ábyrgðarhluti hjá viðskiptaráðherra að bera slíkar sakir á stjórnendur íslensku bankanna. Ráðherrar hafa áður lýst skoðunum sínum á mönnum og málefnum með þessum hætti og spáð fyrir um örlög þeirra fyrir dómstólum.

Þekktustu dæmin af slíku í seinni tíð eru Davíð Oddsson og Björn Bjarnason. Þeir fóru báðir mikinn gegn Baugi og forsvarsmönnum þess félags. Spáðu þeir þungum dómum vegna mikilla afbrota. Ekki reyndust þeir vera miklir spámenn.

Vill Gylfi Magnússon, ráðherrann sem skipaður er á faglegum forsendum í ríkisstjórn Íslands, skipa sér í sveit með Davíð Oddssyni og Birni Bjarnasyni í þessum efnum?“

Ég hef ekki lesið viðtalið við Gylfa Magnússon en sé túlkun Ólafs á því í sama dúr og orð hans um mig í sambandi við Baugsmálið gef ég ekki mikið fyrir útlistanir Ólafs. Hvar spáði ég „þungum dómum vegna mikilla afbrota“ í Baugsmálinu? Ég skora á Ólaf að upplýsa mig og aðra um, hvar þennan spádóm minn er að finna.

Ég skrifaði umsögn um bók Ólafs á vefsíðuna amx.is og í sumarhefti tímaritsins Þjóðmála mun birtast ítarlegri umsögn eftir mig um hana. Höfuðgalli á bók Ólafs er, að hann getur hvergi ýtt Davíð Oddssyni úr huga sér. Hið sama gerist, þegar hann ræðir um Gylfa Magnússon - en nú bætir hann mér í óvinahópinn í anda Baugsmanna.