1.5.2009

Föstudagur, 01. 05. 09.

 

Hægferðin við myndun ríkisstjórnar er ekki til marks um vönduð vinnubrögð heldur vandræðaganginn í samskiptum stjórnarflokkanna. Æ fleiri vekja máls á því, að þessi aðferð við stjórnarmyndun endurspegli firringu forystumanna stjórnarflokkanna tveggja.

Hjá okkur, sem stóðum í ræðustól alþingis, og kröfðumst þess, að stjórnarskrármáli yrði ýtt til hliðar á dagskrá þingsins og tekið til við að ræða um hag heimila og fyrirtækja, vekur það ekki hina minnstu undrun, að formenn stjórnarflokkanna skuli vilja ræða annað en hin raunverulegu og brýnu úrlausnarefni.

Í dag er því fagnað, að fimm ár eru liðin síðan aðildarríkjum Evrópusambandsins fjölgaði um 10. Þótt mat manna sé almennt á þann veg, að stækkunin hafi gengið vel, er jafnframt tekið fram, að ólíklegt sé, að almennur áhugi sé á fjölgun aðildarríkja næstu ár. Fréttir í þessum dúr komast ekki að hjá ESB-blöðum eða ESB-álitsgjöfum fjölmiðlanna. ESB-elítan vill ekki birta aðrar fréttir um ESB en menn bíði þar óþreyjufullir eftir að taka á móti umsókn frá Íslandi.