9.5.2009

Laugardagur, 09. 05. 09.

Var klukkan 16.00 í Kópavogi, þegar Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri, og Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, opnuðu Tónlistarsafn Íslands.

Mbl.is birti dagbókarfærslu mína í gær. Á mbl.is geta lesendur látið ljós sitt skína um það, sem þar birtist. Hér vitna ég í þrjá:

 Sigurgeir Bergsson:

„Það er ekkert að marka hvað þessi maður segir opinberlega. Hann er meðlimur í Bilderberg og þeirra hagur er ekki okkar hagur!“

Þór Jóhannesson, 34 ára bókmenntafræðingur:

„Gaman að heyra gamla fúla þverhausinn tala um falleinkunnir þar sem líklega eru fáir ráðamenn í þessu landi sem hafa fengið eins hörmulega falleinkunn í gegnum söguna og Björn Bjarnason. Honum tókst ekki bara að innleiða fasisma í dómsmálaráðuneytið og koma hér upp einhverri mannúðarverstu innflytjendastefnu sem hugsast getur - heldur tókst honum sem menntamálaráðherra að slíta úr sambandi hverfaskólaregluna og gera nemendum sem ekki fæddust með silfurskeið í rassgatinu erfitt fyrir að komast í framhaldsskóla í hverfinu sínu.

En það sem þessum beiska ættarlauk auðvaldsættarinnar tókst aldrei var að verða æðsti maður Sjálfstæðisflokksins og brást þar með vonum ættfeðra sinna og fær hann því ekki bara falleinkunn sem pólitíkus frá fólkinu í landinu heldur einnig frá auðvaldsættinni sem hann brást.

---

Og yfir í annað en tengt mál, hvenær ætar mbl.is að hætta að éta allan skítinn upp eftir Birni Bjarnasyni sem hann skilur eftir sig á bloggsíðu sinn. Maðurinn er marklaus fýlupúki sem ekkert mark er á takandi. Óþolandi hvað þessi miðill er sjúklega ástfanginn af þessum auðvaldssinna og íhaldsdurgi.“

 Ágúst Már Garðarsson, var í framboði fyrir Borgarahreyfinguna:

„Alveg hörmulegt að einn helsti miðill landsins  [mbl.is] lepji enn bullið úr þessum ruglaða manni sem ekki vill láta af völdum og alltaf hefur rétt fyrir sér, hvað tala Hannes og hann um þessa daga á Holtinu, veruleikafirrtu mennirnir sem leiddu þjóðina í glötun.

Björn hlífðu þjóðinni við ruglinu í þér, um daginn voru þau svo lengi að setja saman ríkisstjórn og þá var enn vika í að þau næðu að eyða jafnlöngum tíma og það tók þig að setja saman allar þær ríkisstjórnir sem þú hefur setið í meðan þú komst þessu landi á hausinn og studdir stríð í fjarlægum löndum ásamt því að taka virkann þátt í að semja hryðjuverkalög sem nú bitna á þinni eigin þjóð.  

Þú ert á mörkum þess að vera föðurlandssvikari og ættir að líta þér nær.“

Mér finnst merkilegt að sjá, hvað það fer í taugarnar á þessum gagnrýnu lesendum, að þar skuli birt efni, sem vekur þessar sterku og málefnalegu kenndir hjá þeim.