14.5.2009

Fimmtudagur, 14.05.09.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, svipti hulu af tillögu sinni að ályktun alþingis um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Tillagan og rökstuðningur með henni er á þann veg, að ástæða er til að efast um, að þar hafi þeir komið að, sem eiga að gæta vandaðrar meðferðar mála á alþingi.

Að þessu leyti er tillagan í ætt við vaðal Samfylkingarinnar um Evrópusambandið. Tillagan er að hinu leytinu til marks um, að Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri-grænna, fórnar öllum málefnum fyrir það eitt að sitja í ríkisstjórn. Hann sagðist „að sjálfsögðu“ ætla að greiða tillögunni atkvæði.

Hið furðulega er, að svo virðist, sem ríkisstjórnin ætli að fela sérfræðingum án pólitísks umboðs að ræða við Evrópusambandið, þeir skili niðurstöðu, og hún verði lögð fyrir þjóðina, án þess að ríkisstjórnin taki afstöðu til hennar. Hver mun setja stafi sína á niðurstöðuna gagnvart Evrópusambandinu? Á sá, sem það gerir, ekki að hafa tryggt sér umboð meirihluta alþingis til stuðnings við niðurstöðuna? Á kannski enginn að flytja tillögu um niðurstöðuna á þingi?

Vinnubrögðin samkvæmt greinargerð með stuttaralegri tillögu Össurar eru í hróplegri andstöðu við hina miklu hagsmuni, sem eru í húfi fyrir Íslendinga. Þessi óvönduðu vinnubrögð eru í raun öflugasti stuðningur við þá tilhögun, sem samþykkt var á landsfundi sjálfstæðismanna: Að stjórnmálaflokkarnir komi sér saman um skilyrði fyrir aðild, þau verði sett í umsóknarskjal og það skjal síðan borið undir þjóðina í atkvæðagreiðslu. Þar með yrðu ríkisstjórn og viðmælendum við ESB fyrir Íslands hönd veitt nauðsynlegt umboð til að hagsmuna þjóðarinnar sé gætt með samþykki hennar.