30.5.2009

Laugardagur, 30. 05. 09.

Í gær skoraði ég á Ólaf Arnarson að færa sönnur fyrir fullyrðingu sinni um orð, sem hann sagði mig hafa látið falla um Baug. Ólafur segir á vefsíðu sinni í dag:

„Síst vil ég bera á menn rangar sakir og því er mér ljúft að leiðrétta þau orð mín, að Davíð Oddsson og Björn Bjarnason hafi spáð Baugsmönnum „þungum dómum vegna mikilla afbrota.“ Þeir notuðu ekki þessi orð.“

Af þessu tilefni vil ég enn minna á, að Baugsmenn fóru með kæru vegna orða minna sem dómsmálaráðherra um Baug til mannréttindadómstólsins í Strassborg, eftir að íslenskir dómstólar höfnuðu málflutningi þeirra. Strassborgar-dómstóllinn vildi ekkert hafa með málið að gera.

Horfðum á Britain's got Talent í ITV 1sjónvarpsstöðinni, þar sem karla danshópurinn Diversity hlaut fyrstu verðlaun en söngkonan Susan Boyle, sem hlotið hefur heimsfrægð vegna þátttöku sinnar, varð í öðru sæti. Bretar völdu í símakosningu á milli 10 keppenda í úrslitakeppninni.